Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hundraða saknað í Síerra Leone

16.08.2017 - 05:07
Erlent · Hamfarir · Afríka
epa06144812 Residents view damage caused by a mudslide in the suburb of Regent behind Guma reservoir, Freetown, Sierra Leone, 14 August 2017. According to news reports citing Sierra Leone's Vice President Victor Bockarie Foh, hundreds are feared dead
 Mynd: EPA
Minnst 600 manns er enn saknað í Freetown, höfuðborg Síerra Leone, eftir aurskriður og flóð í vikunni. Nærri 400 hafa þegar verið úrskurðaðir látnir víða í borginni vegna vatnsveðursins. 

Breska ríkisútvarpið hefur eftir hjálparstarfsmönnum Rauða krossins á svæðinu að þeir séu í kapphlaupi við tímann um að finna einhverja á lífi í rústunum. Ernest Bai Koroma, forseti Síerra Leone, biðlar til nágrannaríkja og annarra um aðstoð. Hann segir heilu samfélögin hafa þurrkast út í hamförunum.

Sameinuðu þjóðirnar hafa flutt starfslið sitt í landinu og aðstoða við hjálparstörf. Stephan Dujarric, talsmaður SÞ, segir aðgerðaráætlun hafna til þess að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma á borð við kóleru, taugaveiki og niðurgang.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV