Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Hundraða milljóna tjón í Skeifunni

Mynd með færslu
 Mynd:
Tjón af völdum brunans í Skeifunni hleypur á hundruðum milljóna króna. Bruninn nótt er einn mesti eldsvoði hér á landi á síðustu áratugum.

Það var ljóst þegar líða fór á gærkvöldið og nóttina að bruninn í Skeifunni var umfangsmikill og að tjón af völdum hans yrði mikið þegar upp er staðið. Enn er of snemmt að meta heildartjón en ljóst að það hleypur á hundruðum milljóna króna. 

Samanlagt brunabótamat fasteignanna við Skeifuna 11 a, b, c og d er rúmlega 1,8 milljarðar króna.

Nokkrir stórbrunar á höfuðborgarsvæðinu koma upp í hugann þegar rennt er yfir sögu síðasta aldarfjórðungs.

Árið 1989 kom upp eldur í Gúmmívinnustofunni á Réttarhálsi. Það tjón var á sínum tíma metið á tæpar 200 milljónir króna.

Í nóvember árið 2004 brann athafnasvæði Hringrásar við Sundahöfn. Þar brunnu um 2.000 tonn af hjólbörðum og myndaðist svo mikill reykur af eldinum að 500 íbúar við Kleppsveg þurftu að yfirgefa heimili sín. Jón Viðar Matthíasson, þáverandi aðstoðarslökkviliðsstjóri og núverandi slökkviliðsstjóri líkti þeim bruna á sínum tíma við náttúruhamfarir.

Í apríl 2007 kom upp eldur í húsum við Austurstræti og Lækjargötu í miðborg Reykjavíkur. Miklar skemmdir urðu á húsunum og hafa þau verið endurbyggð.Þá eins og nú var lán í óláni að veður var lygnt. 

Loks má nefna að eldur hefur komið upp í Skeifunni 11 að minnsta kosti tvisvar áður. Í október 1975 varð stórbruni í húsinu og miklar skemmdir á tveimur fyrirtækjum sem þar voru til húsa; teppaversluninni Persíu og Stillingu sem þar er enn starfrækt.

Þá kom upp eldur í húsnæði Fannar í sama húsi í júlí 2008, en þá tókst að hemja eldinn á skammri stundu og hlaust af honum minniháttar tjón.