Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hundrað verkefni á dagskrá fullveldisafmælis

Mynd með færslu
 Mynd: Jyske Opera

Hundrað verkefni á dagskrá fullveldisafmælis

07.12.2017 - 14:05

Höfundar

Afmælisnefnd hefur kynnt verkefni sem valin hafa verið á dagskrá aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands 2018. Leitað var til landsmanna eftir tillögum og voru hundrað verkefni valin.

Fyrir ári skipaði Alþingi nefnd til að undirbúa hátíðahöld í tilefni hundrað ára afmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands árið 2018. Afmælisnefnd leitaði til landsmanna eftir tillögum að verkefnum á dagskrá afmælisársins. Hundrað verkefni voru valin úr 169 innsendum tillögum. Þau voru tilkynnt í Safnahúsinu við Hverfisgötu í dag.

Meðal verkefna sem verða á dagskrá afmælisársins eru sjónvarpsþættir um fullveldisöldina sem sýndir verða á RÚV. Sagafilm framleiðir og eiga þættirnir að vekja athygli á stórum og stefnumarkandi stundum á fullveldisöld. 

Þar má einnig nefna óperuna Bræður eftir Daníel Bjarnason, sem sett verður upp í samstarfi Íslensku óperunnar og Dönsku þjóðaróperunnar. Óperan var einn aðalviðburður í hátíðahöldum Árósa sem menningarborgar Evrópu 2017.

Fullveldisafmælinu verður einnig fagnað í Þjóðminjasafni Íslands með sýningum um Kirkjur Íslands. Sýningarnar byggja á safngripum, munum og myndum úr safneign Þjóðminjasafns Íslands. Af tilefni fullveldisafmælisins stendur til að efna til samstarfs við stofnanir hérlendis og erlendis um að fá gripi að láni yfir sýningartímann.

Verkefnin eru fjölbreytt og fara fram um land allt. Mörg þeirra fela í sér samstarf einstaklinga, samtaka og stofnana hér á landi og erlendis. Sérstaklega var hvatt til nýsköpunar í áherslum sem nefndin kynnti á vef sínum þegar auglýst var eftir verkefnum á afmælisdagskrána.

Hægt er að kynna sér verkefnin hér (PDF).

Tengdar fréttir

Klassísk tónlist

Ópera Daníels Bjarnasonar frumsýnd í Árósum