Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Hundleiðinlegt að lagfæra verk annarra“

Mynd: GT RUV / RUV mynd

„Hundleiðinlegt að lagfæra verk annarra“

27.09.2017 - 16:50

Höfundar

Á Hagatorgi í vesturbæ Reykjavíkur stendur listaverkið Íslandsmerki eftir Sigurjón Ólafssson. Skúlptúrinn er hæstur 7 metrar en hann samastendur úr fimm súlum og er í raun hópmynd þegar vel er að gáð. Í Víðsjá á Rás 1 var rætt við Helga Gíslason myndhöggvara og Sigurð Trausta Traustason, en þeir hafa verið að vinna viðgerð á verkinu síðustu daga.

Til minnningar um lýðveldisstofnun

Samkvæmt vefsíðu Listasafns Reykjavíkur, sem hefur umsjón með verkinu og fjölmörgum öðrum verkum í borgarlandinu, var það árið 1969 sem borgarráð Reykjavíkur samþykkti að fela Sigurjóni Ólafssyni myndhöggvara að gera tillögu að minnisvarða til að minnast stofnunar íslenska lýðveldisins 1944. Þar segir líka:

Minnisvarðinn er myndaður af fimm misháum súlum úr koparplötum sem standa á steyptum sökkli. Hugmyndin um súluna er miðlæg í allri listsköpun Sigurjóns. Þar kemur margt til, hugsanlega öndvegissúluminnið, en einnig helgar súlur fornra þjóða á borð við indjána á vesturströnd Norður-Ameríku, auk þess sem súlan nýtist mörgum formbyltingarmönnum þegar einfalda skal myndmálið. Súlan er einnig ævafornt minni hins upprétta manns sem stendur einn og óstuddur andspænis víðáttum heimsins. 

Mynd með færslu
 Mynd: GT RUV - RUV mynd
Þeir Helgi Gíslason og Sigurður Trausti Traustason hafa verið á Hagatorgi síðustu daga , á milli skúra.

Þegar útvarpsmann ber að voru þeir félagar, Helgi og Sigurður Trausti (við þriðja mann), að taka niður plastskjól sem reist hefur verið utan um viðgerðina síðustu daga. 

Hreiður í Íslandsmerkinu

„Við vorum að ljúka við að sjóða í gat sem var neðst á einni súlunni,“ segir Sigurður Trausti. „Það hefur eflaust bara komið út af veðri og vindum, það hefur frosið í þessu og síðan myndast stórt gat sem þurfti að loka. Þarna í gatinu var lítil fuglafjölskylda búin að koma sér fyrir. Þau flugu í burtu þegar við komum.“

Veggjakrotið enn erfiðara

Helgi hefur verið með logsuðutækið á lofti á Hagatorgi síðustu daga. „Það hefur verið þrautin þyngri að vera að þessu utanhúss á þessum tíma. Það var rok og það var rigning en þetta hafðist. Mér finnst hundleiðinlegt að lagfæra verk annarra myndlistarmanna, það er betra að sinna bara viðhaldi. Það er tvennt ólíkt að sinna viðhaldi og viðgerðum, við eigum að ganga betur um menningararfinn.“

Sigurður Trausti segir að veggjakrotið, sem líka sést á þessu verki, sé enn erfiðara. „Það kemur því miður oft fyrir að það sé krassað á verkin og talsvert virðingarleysi í gangi. Oftast eru samt verkin sjálf látin í friði en stöplarnir eru frekar teknir. Það er auðveldara að þrífa þá en þegar það er krassað svona beint á bronsið þá þurfum við að kalla til sérfræðinga, forverði, til að hreinsa það upp svo ekki komi fram litamunur. Svo það er næsta skref í viðgerðunum á þessu verki, að hreinsa krotið burt.“

Aukið fé til bráðaviðgerða

Viðhaldi á útilistaverkum í borginni hefur verið ábótavant undanfarin ár en nýlega samþykktu borgaryfirvöld aukið fé til bráðaviðgerða. „Við erum að spila úr þeim fjármunum núna,“ segir Sigurður Trausti. „Þetta er bara eins og með allt annað, fasteignir og slíkt, sem er utandyra, - ef við förum ekki í viðhald þá þurfum við að fara í viðgerðir og þær eru alltaf dýrari á endanum.“

Fólk tekur eftir viðgerðunum

„Það er þannig að maður verður oft dálítið blindur á umhverfi sitt og listaverkin í borgarlandinu. Hins vegar tekur fólk eftir þegar við förum að vinna við verkin, byggja stillansa og sniglast í kringum þau. Í þessari viðhaldsvinnu undanfarið hefur þrisvar sinnum verið hringt á lögregluna vegna viðgerðarfólksins okkar og það sýnir auðvitað að fólki er ekki alveg sama um þessi verk. “

Virðing fyrir menningararfi

Helgi bendir á að oft sé rætt um nauðsyn þess að koma ungu fólki í skilning um það að vera ekki að skemma listaverk. „En þetta gildir líka um fólk almennt. Það myndi til dæmis aldrei líðast suður á Ítalíu að fólk væri að klifra upp á listaverk, eins og gerist hér í miðbænum þegar mannfjöldi kemur þar saman. Þá er klifrað upp á verk Ásmundar Sveinssonar við MR (Andlit sólar, 1961) og styttuna af Ingólfi Arnarsyni eftir Einar Jónsson (1924). Þetta er bara almenn fræðsla sem við þurfum að koma að í skólum og víðar.“

Viðtalið við þá Helga og Sigurð Trausta má heyra hér að ofan en þar ræða þeir vanda þess og vegsemd að verja útilistaverk fyrir tímans tönn og spreybrúsum.