Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Hún er ekki á flótta undan einhverju“

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Sigurlaug Hreinsdóttir, móðir Birnu Brjánsdóttur, ræddi við fjölmiðla eftir langan fréttamannafund lögreglunnar og björgunarsveita síðdegis í dag. Ekkert hefur spurst til Birnu síðan aðfaranótt laugardags og Sigurlaug segir að dóttir sín sé í hættu. „Hún er ekki að velja það sjálf að hverfa og hún er ekki á flótta undan einhverju,“ sagði Sigurlaug við fjölmiðla.

Hún sagði það ekki sína tilfinningu að dóttir sín hefði farið sjálfri sér að voða. „Það er ekki tilfinning sem ég eða vinir hennar hafa haft.“ Hún sagðist vonsvikin með að ekki yrði leitað í nótt að dóttur sinni. „Ég vil auðvitað að það sé verið að leita að stelpunni - ég vil að við finnum stelpuna.“

Hún segir að dóttir sín hafi verið opin og að hún hafi komist í kynni við erlenda ferðamenn í gegnum Tinder - ekki til að vera með þeim heldur eingöngu til að mynda tengsl.  

Hún hafi til að mynda farið gullna hringinn eftir að kynnst ferðamönnum í gegnum síðuna. Lögreglan vinnur nú að því að opna aðgang hennar að samfélagsmiðlinum.  Sigurlaug segir dóttur sína alltaf hafa verið „online“ og það, að láta ekki vita af sér, sé úr taki við hennar hegðun.