Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Hún er afkvæmi míns vanskapaða huga“

Mynd: RÚV / RÚV

„Hún er afkvæmi míns vanskapaða huga“

10.12.2017 - 09:00

Höfundar

„Flórída er persóna, hún gerist ekki í Flórída,“ segir Bergþóra Snæbjörnsdóttir um samnefnda ljóðabók sína sem tilnefnd er til íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fagurbókmennta.

Þrátt fyrir að bókin sé kynnt sem ljóðabók er söguþráður sem liggur í gegnum hana. „Bókin fjallar í raun um tvær konur; Flórídu sem er uppgjafarpönkari og svo mun yngri konu sem flytur til Berlínar í hálfgerður áfallastreytuástandi,“ segir Bergþóra í viðtali við Kiljuna. Sjálf bjó hún úti í Berlín um tíma, kynntist hún Flórídu þar? „Sko, já og nei. Hún er byggð á nokkrum manneskjum sem ég kynntist úti í Berlín. Ég átti skrautlegan hóp af vinum þegar ég var þarna úti. En hún er líka afkvæmi míns vanskapaða huga, ég myndi aldrei vilja að nein af þeim manneskjum sem ég byggði hana lauslega á myndi lesa þetta og halda að þetta væri hún.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hlébarðamunstur klæðir hina áferðafallegu bók Bergþóru.

Titilpersónan er öfgafull að mörgu leyti en í byrjun bókar hittast söguhetjurnar í strætó og Flórída gefur sig á tal við hina yngri, daginn sem Flórída verður sjötug. Hún var pönkari frá suðurríkjum Bandaríkjanna sem nefndi sig eftir heimafylki sínu, rosalega horuð, með alls konar þráhyggjur og afskaplega einmana. „Mig langaði mikið til að fjalla um einmanaleikann, bæði þegar maður er einn, en líka innan um fólk. Ég held að flestir hafi upplifað það einhvern tímann í sjálfum sér, að maður er alltaf einn.“

Egill Helgason ræddi við Bergþóru Snæbjörnsdóttur í Kiljunni um Flórída, viðtalið má sjá í spilaranum auk þess að heyra Bergþóru lesa kafla úr bókinni.

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Íslensku bókmenntaverðlaunin – tilnefningar

Bókmenntir

„Persónuleg í sjötta veldi“

Bókmenntir

„Nú á ég bleika Crocs-skó“

Kvikmyndir

Stuttmyndin unnin eftir verðlaunahandriti