Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Humarstofninn í sögulegu lágmarki

07.02.2019 - 05:36
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Algjört hrun hefur orðið í humarstofninum við Ísland og ráðleggur Hafannsóknastofnun 80 prósenta samdrátt í veiðum milli ára. Verði farið að ráðleggingum Hafró má mest veiða 235 tonn í ár, auk þess sem humarveiðar verða alveg bannaðar í Lónsdjúpi og Jökuldjúpi til að vernda uppvaxandi humar. Þá er lagt til að veiðar með fiskibotnvörpu verði bannaðar á afmörkuðum svæðum í Breiðamerkur-, Hornafjarðar- og Lónsdjúpi, til að minnka álag á humarslóð.

Stofninum hefur hnignað mikið síðustu ár

Kvótinn fyrir síðustu vertíð var 1.150 tonn og hefur aldrei verið minni. Þó náðist ekki að veiða hann allan, því einungis 728 tonn komu í land á vertíðinni, minna en nokkru sinni frá því veiðar hófust af alvöru á sjötta áratug síðustu aldar. Mest var veiðin árið 2010, eða 2.500 tonn, og hafði þá tvöfaldast frá árinu 2004, en hratt hefur fjarað undan humarstofninum síðustu ár.

Nýliðun í sögulegu lágmarki

Í skýrslu Hafró segir að þéttleiki humarholna við Ísland sé nú með því lægsta sem þekkist meðal þeirra humarstofna sem Alþjóðahafrannsóknaráðið veitir ráðgjöf fyrir, eða 0,07 holur á fermetra. Jafnframt kemur fram að fyrirliggjandi gögn bendi til að nýliðun sé í sögulegu lágmarki og að allir árgangar frá 2005 séu mjög litlir. „Verði ekki breyting þar á má búast við áframhaldandi minnkun stofnsins," segir í áliti Hafrannsóknastofnunar. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV