Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Húmanistaflokkurinn býður ekki fram

Mynd með færslu
 Mynd:
Húmanistaflokkurinn býður ekki fram í alþingiskosningum 28. október næstkomandi. Kosningarnar bar skjótt að eftir að ríkisstjórnin sprakk og segir Júlíus K. Valdimarsson, talsmaður Húmanistaflokksins, að tíminn hafi verið of skammur.

„Það er síður en svo af áhugaleysi sem við bjóðum ekki fram núna, heldur eru fimm vikur of skammur tími til stefnu. Það geta aðeins flokkar með flokksmaskínur,“ segir hann. Í Húmanistaflokknum starfi aðeins sjálfboðaliðar en engir launaðir starfsmenn.

Júlíus á ekki von á öðru en að flokkurinn komi tvíefldur til þar næstu alþingiskosninga. Mál flokksins eigi vel við í samfélaginu í dag og nefnir hann þar á meðal Norður-Kóreu, Bandaríkin og kjarnorkuvána.

Húmanistaflokkurinn var stofnaður árið 1984 og bauð í fimmta sinn fram til alþingiskosninga á síðasta ári. Flokkurinn hefur aldrei fengið fulltrúa kjörinn á Alþingi.