Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hulinn heimur fólksins í gámunum

Mynd: Þórsteinn Sigurðsson / Þórsteinn Sigurðsson

Hulinn heimur fólksins í gámunum

28.06.2018 - 14:36

Höfundar

Ljósmyndir Þórsteins Sigurðssonar hafa vakið talsverða athygli á síðustu árum. Hann er þekktur fyrir að fanga íslenska jaðarmenningu sem annars ber lítið á og gefa myndir hans oft einstaka innsýn í hulda heima.

Undanfarin ár hefur Þórsteinn unnið að verkefninu Container Society þar sem hann skyggnist inn í líf tveggja manna sem búa í gámum úti á Granda í Reykjavík. Afraksturinn verður hægt að sjá í bók og á sýningu 21. júlí. „Þetta er úrræði Reykjavíkurborgar fyrir heimilislaust fólk sem á við fíknivanda að stríða. Þetta er svolítið falið. Þegar þú ert að keyra úti á Granda sérðu þetta ekkert,“ segir Þórsteinn í samtali við Lestina. Gámabyggðin vakti þó athygli hans fyrir nokkrum árum og síðastliðið haust bankaði hann einfaldlega upp á hjá einum íbúanum og spurði hvort hann mætti taka mynd af honum. „Hann sagði að ég yrði að vera fljótur því hann þyrfti að fara að sofa, svo ég tók portrettmynd af honum,“ segir Þórsteinn. „Svo segi ég við hann að ég komi aftur á morgun með myndavélina og hann segir bara já, já. Þannig byrjaði boltinn að rúlla.“

Mynd með færslu
Gámabyggðin á Grandanum.

Íbúarnir eiga það flestir sameiginlegt að sprauta sig með vímuefnum í æð og veröld gámanna er alla jafna hulin sýn góðborgarans. Þórsteinn segir þetta óvenjulegt líf og vissulega sorglegt á köflum. „En þegar maður kynnist þeim sér maður þetta mannlega í þeim. Við áttum heimspekileg samtöl um lífið og tilveruna á meðan við drukkum kaffi. Það eina sem skilur á milli mín og þeirra er að á einhverjum tímapunkti fór í gang atburðarás í þeirra lífi sem leiddi til að þeir enduðu þarna, sem hafði í flestum tilvikum eitthvað með fíknisjúkdóm að gera.“

Mynd með færslu

Sprautunotkun er ákveðin endastöð í vímuefnanotkun hjá fólki sem líklega hefur reynt allt annað. „Eftir að þú byrjar að nota sprautur, þá ertu bara góður í að sprauta þig, allt annað í lífinu verður frekar fucked.“ Þórsteinn segir að það hafi aldrei verið markmið hans að hneyksla fólk með myndunum. Þó hafi ekki verið hjá því komist að taka myndir af mönnunum að sprauta sig, en hann hafi reynt að gera það smekklega. Bókin Container Society Volume 1 kemur út 21. júlí samhliða útgáfuhófi og sýningu í gallerí Port á Laugavegi. Bókin er aðeins gefin út í 50 eintökum en allur ágóði af henni rennur til styrktar Frú Ragnheiði, skaðaminnkunarverkefni Rauða krossins. Það er bíll sem keyrir um Reykjavík og aðstoðar verstu settu fíklana með mat, hreinar sprautunálar og heilbrigðisþjónustu meðal annars. „Þau vinna starf sem er ómetanlegt, til að mynda hefur dregist rosalega saman smit á HIV og lifrarbólgu síðan þau tóku til starfa.“

Mynd með færslu

Þórsteinn var áður með hluta af myndunum úr gámunum á vefsíðu sinni en tók þær út eftir að hann fékk tölvuskeyti frá fólki sem úthúðaði honum fyrir að upphefja óreglumenn með myndunum, menn sem kannski höfðu ýmislegt á samviskunni eftir áratugalíf í vímuefnaneyslu. Hann segist einfaldlega vera að mynda þessa menn á þessum stað og þessum tíma, ekki leggja blessun sína yfir ævi þeirra. „Ef einhver tengir ekki við það þá er það bara þannig. Það eru réttlætisriddarar á hverju horni og ef ég ætti alltaf að hlusta á þá myndi ég enda á því að gera ekki neitt.“ Sjálfur ólst Þórsteinn upp í blokk með félagslegum íbúðum þar sem var mikið um óhefðbundinn lífstíl og lærði því snemma að umgangast fólk í óreglu. „Ég var bæði hræddur við þau og fann til með þeim líka. Til dæmis einn maður var mjög góður og alltaf að salta tröppurnar fyrir okkur. Svo datt hann í það og þá gat hann ekki einu sinni klætt sig og ráfaði nakinn um hverfið.“

Þórsteinn hefur einnig leikstýrt myndböndum fyrir tónlistarmenn, bæði Young Karin og Emmsjé Gauta og Birni – en myndband hans við lag rapparans Birgis Hákonar, Sending, hefur slegið í gegn á síðustu dögum. Hann segir ekki auðvelt fyrir sig að vinna í þessum miðli og finnst ramminn helst til þröngur þar sem myndirnar þurfi að þjóna tónlistinni. „Held ég geri ekki meira af þeim í bili, fari frekar út í heimildarmyndir. Ég er hrifnastur af því sem ég gerði fyrir Birgi Hákon,“ segir Þórsteinn. Þar studdust þeir ekki við neitt handrit. „Hann sótti mig á bílnum sínum og við tókum upp í rispum á þriggja vikna tímabili í Efra-Breiðholti þar sem hann býr. Þar vita allir hver hann er, fólk flautaði og veifaði honum, allir krakkarnir vita hver hann er.“

Anna Gyða Sigurgísladóttir ræddi við Þórstein Sigurðsson ljósmyndara í Lestinni. Hægt er að hlusta á allt viðtalið í spilaranum í upphafi færslunnar. Allar myndir í færslunni eru eftir Þórstein og eru í væntanlegri bók hans, Container Society. 

 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Hælisleitendur rjúfa einangrun með ljósmyndum

Menningarefni

„Serían lýsir því sem er í gangi í dag“

Myndlist

Tekur myndir af skipum, bílum og Sturlu Atlas