Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Huldir hatursglæpir gegn hinsegin fólki

13.06.2016 - 12:39
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Árásin á skemmtistaðinn í Pulse í Orlando í Bandaríkjunum að morgni sunnudags er alls ekki fyrst sinnar tegundar, þótt hún sé mannskæðasta skotárás í sögu Bandaríkjanna. Hatursglæpir gegn hinsegin fólki í Bandaríkjunum eiga sér langa sögu og ekki eru þeir allir kærðir til lögreglu.

Árásin á Pulse, sem varð yfir fimmtíu manns að bana, verður án nokkurs vafa flokkuð sem hatursglæpur. Undir hatursglæpi í Bandaríkjunum flokkast meðal annars árásir á fólk vegna trúarbragða þeirra, kynþáttar, kyns eða kynhneigðar. Árið 2009 samþykkti fulltrúadeild Bandaríska þingsins frumvarp þess efnis að árásir fólk vegna kynhneigðar þess yrðu flokkaðar sem hatursglæpir. 

Faðir Omars Mateen hefur sagt í fjölmiðlum að kveikjan að voðaverki sonar hans, hafi verið sú að hann hafi séð tvo karlmenn kyssast úti á götu. Mateen lést í átökum við sérsveit lögreglu, en aðhylltist hugmyndafræði herskárra íslamista.

epa05360057 The US national flag flies at half staff above the White House following a Presidential order in observance of the mass shooting at a nightclub in Orlando, Florida, in Washington, DC, USA, 12 June 2016. Fifty people were killed and fifty-three
 Mynd: EPA - EPA
Flaggað í hálfa stöng við Hvíta húsið í Washington.

Hinsegin fólk líkleg fórnarlömb hatursglæpa

Frá árinu 1991 hafa yfir 100.000 hatursglæpir verið til rannsóknar hjá bandarísku alríkislögreglunni, FBI. Kynhneigð fólks er þriðji algengasti þáttur hatursglæpa í Bandaríkjunum, eða 17%, samkvæmt rannsókn Human Rights Campaign frá árinu 2009.

Samkvæmt nýlegri könnun Gallup skilgreina 3,8% Bandaríkjamanna sig sem hinsegin. Hlutfallslega er hinsegin fólk í Bandaríkjunum því í mun meiri hættu á því að verða fórnarlömb hatursglæpa en aðrir minnihlutahópar.

Önnur rannsókn FBI bendir þó til þess að hatursglæpum gegn hinsegin fólki hafi farið fækkandi undanfarin ár. 1017 hatursglæpir gegn hinsegin fólki voru skráðir hjá FBI árið 2014, samanborið við 1265 árið 2007.

Samkvæmt upplýsingum frá FBI voru beindust 20,8% hatursglæpa árið 2013 að hinsegin fólki.

Í greiningu Southern Poverty Law Center, sem unnin er úr tölum bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, frá árinu 2011 um hatursglæpi, kemur fram að hinsegin fólk sé tvöfalt líklegra til að verða fórnarlömb hatursglæpa en svartir eða gyðingar í Bandaríkjunum. Fjórfalt meiri líkur eru á því að hinsegin fólk verði fórnarlömb hatursglæpa í Bandaríkjunum heldur en múslimar, og 14 sinnum meiri líkur en fólk af rómönsku bergi brotið.

20% allra skilgreindra haturslæpa í Bandaríkjunum árið 2013 beindust að hinsegin fólki, samkvæmt upplýsingum frá FBI.  Einungis glæpir sem beindust að kynþætti voru algengari.  Árið 2014 hafði þeim fækkað niður í 18,6%.

epa05360737 Yesenia Rosa and Leslie Soto hold hands during a vigil to honor the victims of a mass shooting at a nightclub, at Eola Lake Park in Orlando, Florida, USA, 12 June 2016. At least 50 people were killed and 53 were injured in a shooting attack at
 Mynd: EPA
Fjöldi fólks minntist fórnarlambana í Orlando í gær.

Réttindi hinsegin fólks í Bandaríkjunum

Réttindi hinsegin fólks í Bandaríkjunum eru mismunandi eftir ríkjum. Frá árinu 2003 hefur kynlíf milli fólks af sama kyni verið löglegt í öllum ríkjum. Í fyrrasumar höfðu öll ríki Bandaríkjanna leyft og viðurkennt hjónaband fólks af sama kyni. Hinsvegar skortir alríksilög í Bandaríkjunum sem vernda hinsegin fólk fyrir mismunun og ójöfnuði, til að mynda á vinnumarkaði. Því er enn mýgrútur bandarískra ríkja sem hefur ekki lagalegt regluverk til þess að taka á slíkri mismunun.

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur fellt fjóra tímamótadóma sem varða réttindi hinsegin fóks frá árinu 1996. Fyrst var ákveðið að banna lög í þeim ríkjum þar sem hægt var mismuna fólki á grundvelli kynhneigðar, því næst voru afnumin svokölluð sódómskulög, sem bönnuðu kynlíf milli fólks af sama kyni. Árið 2013 var staðfest samvist samkynhneigðra gerð lögleg og árið 2015 voru hjónabönd milli fólks af sama kyni gerð að landslögum. 

Árið 2015 var hinsegin fólki í vígðri sambúð gert kleift að ættlæða börn í Bandaríkjunum. Í sumum ríkjum má hinsegin fólk í óvígðri sambúð  ættleiða börn, en í öðrum er einungis fólki í vígðri sambúð það mögulegt. 

epa05360621 People gather for a vigil for the victims of a mass shooting at an Orlando, Florida gay club outside of the Stonewall Inn, a famous gay bar, in New York, New York, USA, 12 June 2016. 50 people were killed in the Orlando attack, and it is being
 Mynd: EPA
Í New York safnaðist hópur fólks saman fyrir framan Stonewall Inn, sem er frægur samkomustaður hinsegin fólks í borginni, og minntust fórnarlambana.

Árásir á hinsegin fólk ekkert nýmæli

Hinsegin fólk hefur verið fórnarlömb fjölmargra árása í Bandaríkjunum á undanförnum árum og áratugum. Í júní árið 1973 var kveikt í skemmtistaðnum Upstairs Lounge, sem var hinsegin bar, í franska hverfinu í New Orleans, með þeim afleiðingum að 32 létu lífið. Ekki er enn vitað hver framdi verknaðinn.

Undir lok árs 2013 kveikti hinn 31 árs gamli Musab Masmari, í næturklúbbi fyrir hinsegin fólk í Seattle á gamlárskvöld. Um 759 manns voru inni á skemmtistaðnum, en engan sakaði. Masmari var dæmdur í 10 ára fangelsi fyrir verknaðinn.

Í september árið 2000 hóf Ronald Gay skothríð á hinsegin bar í Roanoke í Virginíufylki með þeim afleiðingum að Danny Overstreet, 43 ára, lét lífið. Sex aðrir særðust í árásinni. Gay sagði fyrir dómi að ástæðan fyrir voðaverkinu hafi verið sú að hann hafi verið orðinn þreyttur á háðsglósum vegna eftirnafns síns. Gay taldi réttast að allir samkynhneigðir myndu flytjast til San Fransisco og að það myndi hafa þær afleiðingar að alnæmi yrði úr sögunni.  

Í febrúar 1997 sprengdi Eric Rudolph naglasprengju á næturklúbbi fyrir hinsegin fólk í Atlanta. Um 150 manns voru inni á klúbbnum og slösuðust fimm þeirra alvarlega. Rudolph vildi með árásinni senda siðferðislega spilltum stjórnvöldum skilaboð, þar sem bæði fóstureyðingar og samkynhneigð væru umborin. 

Nýlega var sjóðandi vatni hellt yfir samkynhneigt par í Atlanta og ung transkona var myrt í Iowa í mars.

Þetta er aðeins brotabrot af þeim fjölmörgu hatursglæpum sem framdir hafa verið gegn hinsegin fólki í Bandaríkjunum á síðustu árum og áratugum.

Misvísandi tölur

Þrátt fyrir umtalsverð framfaraskref í bandarísku réttar- og dómskerfi hvað varðar réttindi hinsegin fólks, virðist lítið lát á haturglæpum í garð þeirra. Árásin í Orlando er sársaukafull áminning um það, en einungis ár er síðan lög um hjónabönd hinsegin fólks voru samþykkt af hæstarétti Bandaríkjanna. 

Jay Brown, talsmaður Human Rights Campaign, segir að hatursglæpir gegn hinsegin fólki í Bandaríkjunum sigli undir ratsjána og tölurnar gefi ekki rétta mynd. Fjölmargar árásir séu aldrei kærðar til lögreglu.

Í yfirlýsingu Human Rights Campaign vegna voðaverkanna í Orlando kemur fram að tölur FBI um hatursglæpi gegn hinsegin fólki endurspegli á engan hátt hið raunsanna. Tölur FBI séu einungis byggðar á tilkynningum til lögreglu. Mun fleiri hatursglæpir gegn hinsegin fólki sé framdir á degi hverjum. Nýleg rannsókn AP sýni að lögreglumenn séu tregir til þess að tilkynna glæpi gegn hinsegin fólki sem hatursglæpi, eins og þeim ber skylda til. 

Í grein Edward Siddons í Independent í dag kemur fram að árásin í Orlando sé fyrst og fremst vitnisburður um það mannhatur sem hinsegin fólk út um allan heim mætir á degi hverjum. Því sé ekki rétt að einblína á trúar- eða pólitískar skoðanir árásarmannsins, líkt og forsetaefni repúblikanaflokksins, Donald Trump gerir.

Siddons bendir á að slík viðleitni sé einungis til þess fallin að ýta undir það að litið sé framhjá daglegum veruleika hinsegin fólks. Því sé mikilvægt að tala opinskátt um veruleika samkynhneigðra, en ekki afvegaleiða umræðuna og beina henni í átt að trú morðingjans eða hvernig sé hægt að vernda öryggi bandarískra ríkisborgara.