Hugvíkkandi og hnyttin myndlist

Mynd: Listasafn Reykjavíkur / Listasafn Reykjavíkur

Hugvíkkandi og hnyttin myndlist

12.11.2018 - 16:02

Höfundar

Listasafn Reykjavíkur hefur tekið upp á því að halda á hverju ári yfirlitssýningu á verkum listamanna sem eru komnir á miðjan aldur. Í ár er sýningin helguð verkum Haraldar Jónssonar. Hún ber nafnið Róf og teygir sig 30 ár aftur í ferli hans.

Rætt var um sýninguna Róf í Lestarklefanum, umræðuþætti um menningu og listir. Gestir þáttarins voru Ilmur Stefánsdóttir myndlistarmaður, Unnsteinn Manuel Stefánsson tónlistarmaður og Þórdís Gísladóttir rithöfundur.

„Ég er búin að fylgjast með Haraldi í mörg ár,“ segir Ilmur. „Hann leyfir sér að taka fyrir tilfinningar sem viðfangsefni. Það er það sem að mér finnst mest áberandi við hans verk.“ Hún upplifir mikið næmi í verkum hans og heimspekilegan mínímalisma. „Hann er í rauninni að leika sér með að setja hluti í ákveðið samhengi.“ Hún nefnir verkið Göng sem dæmi, þar sem búið er að taka tvo spegla og líma þá saman á spegilhliðinni. „Þannig að við sjáum bara á bakhliðina. Og maður getur bara ímyndað sér, þetta er hugmyndafræðilegt og heimspekilegt rými sem er þarna innan í. Þetta hefur hugvíkkandi áhrif.“

Unnsteinn Manuel segir að list Haraldar krefjist þess að fólk staldri við og kafi dýpra. „Mest af listinni sem ég hef séð frá Halla undanfarið eru Instagram-póstarnir hans. Ég gleymi alltaf hver þetta er og svo birtist mynd sem fær mann til að stoppa og fara dýpra í.“ Hann segist upplifa það sama á yfirlitssýningunni.

Hægt er að horfa á Lestarklefann í heild sinni hér en hann er á dagskrá klukkan 17:03 alla föstudaga og útvarpað í beinni á Rás 1 og sendur út í mynd á menningarvef RÚV.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Einstök mynd byggð á norrænum sagnaarfi

Menningarefni

Ástir trölla, rappari í sjálfskoðun og Róf

Myndlist

Því meira flækjustig – því skemmtilegra