Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Hugsi yfir stöðu flokksins í könnunum

03.09.2015 - 17:51
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segist hugsi yfir niðurstöðu nýjustu könnunar Gallups þar sem flokkurinn mælist með minnsta fylgi í sjö ár. Hann segist ekki sáttur og að flokkurinn vilji gera betur til að mæta væntingum fólks á öllum sviðum.

Í Gallup könnunum síðustu mánuði á fylgi flokka hafa verið miklar fylgissveiflur og í þeirri nýjustu eru Píratar stærsti stjórnmálaflokkur landsins fimmta mánuðinn í röð með 36 prósenta fylgi. Um áramót var Sjálfstæðisflokkurinn með 27 prósenta fylgi samkvæmt Gallup en í þeirri nýjustu er fylgið komið niður í 21,6 prósent sem er minnsta fylgi frá því í nóvember 2008, í miðju efnahagshruni.

„Ég er bara hugsi yfir þessari niðurstöðu,“ segir Bjarni. „Ég ætla ekki að þykjast vera sérfræðingurinn sem að get sagt nákvæmlega hvers vegna þetta er svona, en við erum ekki sátt við þetta í mínum flokki og við viljum gera betur og við teljum við hafa svo margt fram að færa sem eigi að ná betur til kjósenda og ég vísa bara til þess hvað hér er að verða mikill efnahagslegur uppgangur sem er forsenda þess að við getum betur mætt væntingum fólksins í landinu á öllum sviðum.“

En hverjar telur Bjarni vera skýringar á þessum fylgissveiflum sem nú eru viðvarandi í könnunum mánuðum saman. „Rót þessarar þróunar tel ég vera það sem gerðist á árinu 2008 og að enn sé beðið þess að það þroskist samtalið aftur við kjósendur.“