Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Hugsanlegt að einhverjir hafi orðið eftir

20.08.2014 - 00:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Rýming á svæðinu norðvestur af Vatnajökli, vegna stöðunnar í Bárðarbungu, hefur gengið vel fyrir sig. Þó er ekki hægt að útiloka að einhverjir hafi orðið eftir á svæðinu. Þetta sagði Víðir Reynisson, deildarstjóri hjá Almannavörnum, á tólfta tímanum í kvöld.

„Staðan er þannig að rýmingin á þessu svæði hefur bara gengið vel. Þetta tekur reyndar langan tíma, eins og okkur grunaði. Og þeir síðustu eru ennþá á leiðinni niður. Og heildar rýmingunni lýkur þá ekki fyrr en kannski á þriðja tímanum í nótt. En allt hefur gengið vel og allir hafa skilning á þessari ákvörðun. Og þetta tekur bara sinn tíma. Þetta eru slæmir vegir og annað slíkt. Það sem við gerum síðan í framhaldinu er það að flugvél Landhelgisgæslunnar mun fljúga þarna yfir á morgun og sjá hvort einhver hafi orðið eftir. Við náttúrulega vitum ekki um allt göngufólk og annað slíkt sem gæti verið á ferðinni en við ætlum að skima svæðið á morgun með hjálp Landhelgisgæslunnar og eftir það verðum við vonandi nokkuð öruggir með það að þarna sé enginn á ferðinni,“ segir Víðir.

Hvaða svæði hafa þegar verið rýmd?

„Það eru Kverkfjöll og úr Drekagili. Og eins og ég segi, þá eru þeir komnir nokkuð vel niður fyrir það, lögreglumennirnir sem eru aftast í þessu, þannig að það er eiginlega búið að rýma öll svæði sem menn hafa verið að gista á og þetta er svona ein halarófa á leiðinni niður á þjóðveg.“

En það er ekki útilokað að þarna sé ennþá fólk?

„Nei við getum ekki útilokað það og þess vegna ætlum við að nota flugvél Landhelgisgæslunnar á morgun til þess að fljúga þarna yfir og skima svæðið og sjá hvort við sjáum til einhverra og grípum þá til ráðstafana til þess að koma upplýsingum til þeirra.“