Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Hugsanir sem djöflast í höfðinu á þér“

Mynd: rúv / rúv
„Þetta eru hugsanir sem djöflast í höfðinu á þér.“ Þetta segir slökkviliðsmaður sem glímdi við áfallastreituröskun. Vakning hefur orðið um mikilvægi sálræns stuðnings og þess að vinna með áföll innan slökkviliðsins, lögreglunnar og meðal björgunarsveita undanfarin ár og áratugi en hann segir að stöðugt verði að minna á mikilvægi þess að tala um erfið útköll. Sérfræðingur segir þörf á að efla þekkingu og meðferðarúrræði hér á landi.

„Maður verður svolítið að horfa á þetta aftur í tímann, í raun upplifirðu þetta kannski ekki akkúrat á meðan á þessu stendur af því að þú ert ekki að átta þig á því alltaf að þú sért að upplifa eitthvað. Ég áttaði mig ekki á því að ég væri að draga mig til baka, að ég væri mögulega að þróa með mér þunglyndi en ef ég horfi til baka þá veit ég alveg hvenær það byrjar, hvenær ég byrja að breyta um karakter í rauninni.“ 

Haukur Grönli varaslökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu hefur haldið á látnu ungbarni og leitt hugann að ungbarninu sínu heima, fundið fjarlægðina gufa upp, hann hefur komið á vettvang þar sem foreldri hafði orðið barni sínu að bana, hann hefur lent í sjálfsmorðssprengjuárás í Afganistan. Þetta eru nokkur dæmi af mörgum. Öllu þessu tróð hann ofan í bakpokann sem sífellt þyngdist, þangað til byrðin varð óbærileg. 

Haukur leyfði félögunum að gráta á öxlinni á sér eftir erfið útköll, hvatti þá til þess að hika ekki við að leita sér hjálpar en það átti annað við um hann sjálfan. Hann ræddi ekki upplifanir sínar og tilfinningar á viðrunarfundum, sem haldnir eru eftir erfið útköll, það var ekki fyrr en hann var kominn heim, og sat við eldhúsborðið með bjór, sem hann sleppti taumhaldinu af tilfinningunum. Síðar ágerðist hamagangurinn í höfðinu á honum og áfengið náði ekki að þagga niður í djöflunum. Hann var á endanum farinn að hugsa um að kannski væru allir betur settir án hans.

Hlýða má á viðtalið við Hauk í spilaranum hér fyrir ofan. 

Aukin þörf á þekkingu vegna ferðamanna og hælisleitenda

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnhildur Lind Borgarsdóttir
Ferðamenn átta sig ekki alltaf á því hvað náttúran getur verið hættuleg og það getur haft skelfilegar afleiðingar í för með sér. Þessir sluppu með skrekkinn.

Haukur telur að nokkuð sé um áfallastreituröskun meðal slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til þess að um fimmtungur lögreglumanna hérlendis glími við áfallastreituröskun. Tíðni meðal Íslendinga almennt er ekki þekkt, rannsóknir skortir. Fyrri rannsóknir á íslenskum lögreglumönnum hafa sýnt að það sem helst leiðir til áfallastreitu hjá þeim er að horfa upp á manneskju deyja eða meðhöndla fólk sem hefur orðið fyrir alvarlegu ofbeldi. 

Sálfræðingar við Háskólann í Reykavík telja mikilvægt að efla þekkingu og þjálfun fyrir fagfólk hér á landi en sérfræðingar hafa þurft að sækja sér þekkingu á röskuninni út fyrir landsteinana. Í ljósi þessa var á dögunum sett á fót sérstakt rannsókna- og þekkingarsetur á sviði áfallastreituröskunar við Háskólann í Reykjavík. „Það er auðvitað mikil þörf á því hér heima að vera með þróaðri meðferðarúrræði, meira en hugræna atferlismeðferð, þar sem íslenskir fagaðilar fá tækifæri til að þjálfa sig. Sérstaklega núna með tilkomu flóttamanna og hælisleitenda. Þarna erum við komin með skjólstæðingahóp sem er með sérþarfir. Þarna eru einstaklingar sem hafa upplifað pyntingar og annað slíkt sem íslenskir fagaðilar eru kannski ekki jafn sterkir í, almennt,“  segir Sigríður Björk Þormar, sálfræðingur og forsvarsmaður áfallastreitusetursins. Hún sérhæfði sig í úrvinnslu og doktorsverkefni hennar fjallaði um áfallastreitu björgunarfólks og sjálfboðaliða eftir hamfarir og erfið útköll. Hún bendir líka á að með mikilli fjölgun ferðamanna hafi álag á viðbragðsaðila, sem ekki hefur fjölgað að sama skapi, orðið meira, það auki líka þörfina á áfallastreitusetri. Hún segir mikilvægt að fræða viðbragðsaðila og fagfólkið sem sinnir þeim. Oft sé fólk ekki meðvitað um einkennin, svo sem svefnvandamál, martraðir, stuttan kveikiþráð og tilhneigingu til að einangra sig. 

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is

Margvíslegir meðferðarkostir

Það er ýmis konar meðferð í boði við röskuninni og um 60% svara meðferð. Sigríður nefnir hugræna úrvinnslumeðferð, sem heyrir undir hugræna atferlismeðferð. Þá er unnið með stíflur.  

„Þar sem fólk er kannski fast í ásökun eða sekt sem er ekki alltaf sanngjörn. Með því að fara í gegnum söguna á ákveðinn hátt áttar fólk sig stundum á því að það sé mögulegt að sjá hlutina öðruvísi. Það verður oft til þess að losa um áfallið. “ 

Hún nefnir líka EMDR-meðferð, hún felst í því að vinna kerfisbundið með ákveðnar minningu, meta hugsanir og tilfinningar tengdar henni frá ýmsum hliðum. Síðan sveiflar sálfræðingurinn fingrunum fram og til baka fyrir framan skjólstæðinginn og hann á að fylgja hreyfingunni eftir með augunum og rifja upp minningar tengdar áfallinu á sama tíma. Við þetta tekur skammtímaminni skjólstæðingsins við miklum upplýsingum, minningin af áfallinu breytist og tilfinningalegt vægi hennar minnkar. 

Forsvarsmenn áfallasetursins ætla að fylgjast vel með nýjustu rannsóknum og meðferðarúrræðum og eru með samstarfsaðila víða. Það er meðal annars verið að skoða hormónameðferð og meðferðaröpp. 

Gefa ástarhormón 

Einn samstarfsaðilinn er Miranda Olff, prófessor við háskólann í Amsterdam og forseti Alþjóðasambands áfallarannsókna, hún flutti erindi við stofnun áfallasetursins. Miranda segir að eftir áfall skipti félagslegur stuðningur mestu máli, það að einhver sé til staðar. Hún hefur verið að rannsaka hvernig hægt sé að styrkja upplifun þolenda af þessum stuðningi með hormónameðferð, því að gefa þeim Oxýtósín, hormónið sem líkami okkar myndar þegar við upplifum félagslega nánd. Oxýtósín hefur verið kallað ástarhormónið, tengslamyndunarhormónið, konum er stundum gefið það eftir barnsburð til að liðka fyrir brjóstagjöf. Rannsókn Olff og félaga fólst í því að gefa fólki sem lent hafði í skelfilegu slysi eða áfalli oxýtósín með nefspreyi, skömmu eftir komuna á bráðamóttöku. Það fékk svo að taka spreyið með heim og nota í viku. Niðurstöðurnar komu á óvart, lofa góðu. Sex vikum síðar voru einkenni áfallastreitu hjá þessum hópi minni en hjá samanburðarhópi. En ein rannsókn er engin rannsókn, segir Olff og vísar til mikilvægis þess að endurtaka rannsóknina til að sjá hvort niðurstöðurnar verði þær sömu. Hormónið er ekki ávanabindandi og það eru engar aukaverkanir að sögn Olff. Það þarf þó að hafa í huga að taka það einungis í aðstæðum þar sem fólk upplifir vellíðan og félagslegan stuðning, upplifunin af því ræðst af samhenginu og  það getur líka styrkt neikvæða upplifun.

Sýndarveruleiki og öpp

Olff bindur líka vonir við tækninýjungar, ný smáforrit sem byggja á hugrænni atferlismeðferð, hjálpar notandanum bera kennsl á einkenni,  greina neikvæðar hugsanir og vinna úr þeim og hvetja þá til að leita hjálpar fagaðila ef þörf er á. Rannsóknir hafa sýnt að fjögurra vikna notkun eykur seiglu og dregur úr neikvæðum hugsunum. Þetta er ódýr leið að sögn Olff, getur nýst fólki um allan heim og nægir hugsanlega þeim sem eru með væga áfallastreituröskun, þessi öpp geti því orðið til þess að stytta biðlista, tæknin er þó ekki enn búin að gera meðferðaraðila óþarfa að hennar sögn. Þá nefnir hún sýndarveruleikatækni, það hefur lengi verið þekkt að það að gera fólki kleift að upplifa áreiti sem minnir á áfallið hjálpar og í sýndarveruleika getur fólk gert það, heyrt hljóð eða séð myndir.

Hárið geymir streitusögu

Það er svo hægt að greina merki um áfallastreituröskun með því að skoða hár, styrkur kortisóls lækkar hjá þeim sem eru með röskunina og það má mæla styrk kortisóls eftir tímabilum í hári fólks, það segir ákveðna sögu, en hárið þarf þá auðvitað að vera nokkuð sítt. 

Minna vitað um áfallastreitu kvenna

Olff segir mikilvægt að meðferðarúrræði taki mið af þeim hópum sem þau eigi að nýtast, kyni og uppruna til dæmis.  Minna er vitað um áhrif áfallastreituröskunar á konur þar sem 98% heilarannsókna sem snúa að áfallastreituröskun hafa verið gerðar á karlkyns heilum. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV