Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Hugnast ekki pólitísk stefna AGS

11.08.2013 - 18:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Forsætisráðherra segir að sér hugnist ekki að öllu leyti sú pólítiska stefnu sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn reki og birtist meðal annars í nýrri skýrslu sjóðsins um Ísland.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, telur að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé á villigötum þegar hann haldi því fram í nýrri skýrslu að lítið svigrúm sé til þess í ríkisfjármálum að fella niður skuldir íslenskra heimila í auknum mæli.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn virðist gera ráð fyrir því að þetta verði fjármagnað með lántökum ríkisins. Það hefur hinsvegar ekki staðið til.  Við erum auðvitað búin að fara mjög oft í gegnum þessa umræðu á Íslandi á undanförnum mánuðum. En í þessu máli eins og sumum öðrum virðist Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn reka sína pólitísku stefnu óháð því sem fram kemur í umræðunni hér heima. Og sú pólitíska stefna er mér ekki að öllu leyti að skapi. Menn hafa auðvitað fjallað mikið um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og framgöngu hans í hinum ýmsu ríkjum á undanförnum árum og áratugum. Þar sem hann hefur rekið stefnu sem sumir telja töluvert hægrisinnaða, mikla frjálshyggjustefnu í efnahagsmálum. Og ég tel að hún sé ekki líkleg til að leysa efnahagsvanda Íslands.“ segir Sigmundur.