Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hugmyndir um kynlíf brenglaðar

24.01.2018 - 13:43
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Niðurstöður rannsóknar sem Þórður Kristinsson framhaldsskólakennari gerði ásamt fleirum á áhrifum kláms á viðhorf unglinga leiðir í ljós að þeir fá ekki nógu góða fræðslu og leiti í klám. Hugmyndir þeirra um kynlíf geti verið mjög brenglaðar. 

Þórður og Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir sögðu frá tveimur eigindlegum rannsóknum á morgunverðarfundi sem ofbeldisvarnarnefnd stóð fyrir í morgun. Í annarri var rætt við 13 unglingstúlkur en í hinni við 11 stráka.

Strákar horfa mikið á klám

Þórður segir að komið hafi fram í öðrum rannsóknum að strákar horfi mikið á klám. „Við höfum niðurstöður úr megindlegum rannsóknum sem segja okkur það að íslenskir unglingsstrákar eiga til dæmis Norðurlandametið í klámáhorfi. Stór meirihluti er að horfa þrisvar eða oftar á klám í viku.“ Stelpur horfi mun minna á klám.

„Það er ofbeldi í rétt tæplega 80% þeirra atriða sem eru vinsælust í niðurhali á klámi núna seinustu misseri. Þetta eru svona þær rannsóknir sem við höfum svoleiðis að klám er mjög oft með ofbeldi og ofbeldi sem beinist gegn konum.“ 

Klám hefur áhrif á samskipti kynjanna

Áhorf unglinganna á klám virðist hafa áhrif á samskipti kynjanna í svefnherberginu. Starfsfólk neyðarmóttöku sjái skýr merki þess, að uppspretta ofbeldis sem á borð hennar komi, sé úr klámi. Þórður segir að klámið hafi mikil áhrif því unglingarnir hafi ekki aðgang að öðru kynfræðsluefni. 
 
„Þau fá mjög litla kynfræðslu, mjög mörg. Ég veit að það er einhver kynfræðsla sem er vel gerð en ég myndi segja að þorri þeirra fái ekki nógu góða kynfræðslu og þá leita þau í klámið og það eru þær hugmyndir sem þau hafa um hvernig kynlíf fer fram og það getur verið mjög brenglað.“  

Þórður segir að metoo-umræðan fjalli um mörk og ofbeldi sem eigi sér miklu eldri sögu en klám og klámvæðing. „En þetta kemur klárlega þarna inn og ég held að klám og klámvæðing hafi klárlega áhrif á ekki síst hvað varðar mörkin af því strákar sem við töluðum við sögðu að mörkin þeirra væru að færast eftir því hversu mikið þeir horfðu á klám og hvernig klám þeir væru að horfa á. Og einhvernveginn þessi tilfinning þeirra að þeir þyrftu að leita í alltaf grófara og grófara efni til þess að fá sömu áhrif og þeir fengu í byrjun .“

Þórður segir að þörf sé fyrir meiri umræðu. „Ég myndi vilja fá meiri umræðu í samfélaginu um klám og áhrif kláms og ég myndi vilja sjá betri kynfræðslu á öllum skólastigum.“ 

Áhrif klámvæðingar á hugmyndir um útlit

Eitt af því sem kom fram í rannsókn Kolbrúnar og Þórðar er að klám virðist hafa áhrif á hugmyndir ungs fólks um útlit líkamans og væntingar til bólfélaga. Þórður vitnaði í einn viðmælanda sinn sem sagði: „Ég man að ég heyrði einhvern tímann þá var umtalað að einhver strákur var með einhverri stelpu og hún var bara kafloðin skilurðu, það er líka bara held ég ekki snyrtilegt. Það var bara umtalað að hún hefði verið svona loðin.“

Í klámi eru allir hárlausir. Ein stúlka sem tók þátt í rannsókninni hafði áhyggjur af þessu. Hún sagði: „Það eru heldur ekkert allir sem geta rakað sig eins og ég sjálf til dæmis. Mér finnst líka mjög óþægilegt að strákurinn sem ég er hrifin af, honum finnst ógeðslegt að stelpur séu með hár þarna. Ein stelpa spurði nokkra stráka að þessu og ég veit að hann sagði þetta og það er ótrúlega erfitt fyrir mig, þú veist, af því að ég get ekkert rakað þetta allt af. Mér finnst svo ósanngjarnt að vera metin út frá þessu.“

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV