Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hugmyndafræðileg gúrkutíð Jóns Gnarr

Mynd:  / 

Hugmyndafræðileg gúrkutíð Jóns Gnarr

27.03.2019 - 12:26

Höfundar

„Jón Gnarr og Benedikt Erlingsson [hefðu] svo sannarlega ekki þurft að setja upp tveggja tíma langt leikrit til að koma þessum skilaboðum áleiðis,“ segir Þorvaldur Sigurbjörn Helgason gagnrýnandi um leikritið Súper í Þjóðleikhúsinu. Verkið sé hálfbökuð ádeila sem hefði gengið betur upp í hnitmiðuðum tveggja mínútna skets.

Þorvaldur Sigurbjörn Helgason skrifar:

Á dögunum voru opnaðar tvær nýjar matvöruverslarnir hér á landi undir nafninu Súper. Annars vegar lágvöruverðsverslunin Super 1 sem Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson opnaði á þremur stöðum í Reykjavík en hina verslunina er einungis að finna á sviði Þjóðleikhússins í formi nýs leikrits eftir Jón Gnarr fyrrverandi borgarstjóra í leikstjórn Benedikts Erlingssonar. Verkið, sem ber titilinn Súper – Þar sem kjöt snýst um fólk, gerist í samnefndri matvörubúð þar sem leiðir nokkurra viðskiptavina og starfsmanna liggja saman í kælinum.

Persónurnar eru kynntar á svið ein á eftir annari en allar eru þær skopstæling á ólíkum týpum og þjóðfélagshópum. Fyrst fáum við að kynnast Einari og Guðrúnu, leiknum af Arnmundi Ernst Backman og Snæfríði Ingvarsdóttur, ungu pari sem er svo fullkomið á yfirborðinu að það minnir einna helst á Barbie og Ken. Elín, sem Vigdís Hrefna Pálsdóttir leikur, er einstæð móðir sem á 35 ára afmæli. Hún lifir tilbreytingarlausu lífi en ætlar nú heldur betur að sletta úr klaufunum í tilefni af afmælinu sínu og óskar þess helst að fá að eiga náin kynni við ungan og spengilegan mann. Agniezka, leikin af Sólveigu Arnarsdóttur, er pólskur viðskiptafræðingur sem hefur ekki getað nýtt menntun sína til fulls og vinnur nú við að kynna vörur í versluninni. Hannes, sem Hallgrímur Ólafsson leikur, er einfeldningslegur maður sem býr með móður sinni og hefur það helsta markmið að feta í spor nýlega látins föður síns, svo mjög að hann gengur í fötum af föður sínum og þykist jafnvel vera hann. Kristján, leikinn af Jóni Gnarr, vinnur í kjötborði Súper og er alkóhólisti sem býr til skiptis á Íslandi og í Taílandi. Að lokum fáum við svo að kynnast hjónunum Bjössa og Guggu, leiknum af Eddu Björgvinsdóttur og Eggerti Þorleifssyni, bóndahjónum utan af landi sem bregða sér í bæinn annað slagið til að kaupa inn.

Mynd með færslu
 Mynd:
Ljósmynd: Hörður Sveinsson

Persónurnar eiga allar við ákveðin vandamál að stríða í sínu persónulega lífi sem þær lýsa fyrir hinum á opinskáan hátt. Til dæmis má nefna unga parið Einar og Guðrúnu sem eiga í erfiðleikum í tilhugalífinu og það kjarnast í gagnstæðum löngunum og skilgreiningum þeirra á kynlífi; Einar er nefnilega kynlífsfíkill sem hefur engan áhuga á barneignum en Guðrún vill sem minnst af kynlífi og aðeins í þeim tilgangi að fjölga sér. Verkið nýtir ákveðið stílbragð sem algengt er í gríni og spuna um þessar mundir þar sem persónur útskýra hegðun sína og lýsa henni fyrir hinum karakterunum. Þannig lýsa til dæmis Einar og Guðrún því yfir þegar þau stíga á svið að þau séu „íslensk hjón“ og tala um hvernig þau leggi sitt af mörkum við að minnka plastnotkun. Þessar yfirlýsingar persónanna eru eflaust til þess gerðar að sýna fram á hversu fyrirsjáanlegar þær eru og benda á hvernig það að loka sig af innan ákveðinnar hugmyndafræði getur gert mann fordómafullan í garð annarra lífsskoðana. Það lítur allavega út fyrir að höfundur sé að reyna að sýna okkur að þessir ólíku karakterar með allar sínar ólíku lífsskoðanir séu allir jafn klisjukenndir; að það sé jafnfáránlegt að vera vegan einn mánuð á ári en borða svínakjöt þess utan eins og það er að vera edrú sex mánuði á ári en alkóhólisti hina sex, hegðun sem tveir af karakterunum viðurkenna að þeir sýni af sér.

Það er hins vegar varhugavert þegar grínið fer að beinast að minnihlutahópum eins og innflytjendum, samanber hina pólsku Agniezku, eða trans fólki en í síðari hluta verksins komumst við að því að bóndahjónin Bjössi og Gugga eru trans eða hafa í það minnsta skipt um hlutverk og persónu; Bjössi var nefnilega einu sinni Gugga og Gugga var einu sinni Bjössi. En það sem gerir þennan húmor svo erfiðan er ekki það að hann sé móðgandi eða illkvittinn gagnvart þessum hópum heldur það að maður áttar sig ekki alveg á því hvað höfundur vill segja með honum. Jón Gnarr hefur sjálfur lýst verkinu sem „tragísku grínleikriti“, ágætis lýsing í ljósi þess að verkið nýtir sér óspart hið vandmeðfarna stílbragð satírunnar í farsakenndum húmor sem á köflum jaðrar við að vera óþægilegur. Hann hefur einnig vísað aftur fyrir sig í listasöguna og nefnt súrrealismann og absúrdleikhúsið sem fyrirmyndir. Þetta eru hentugir merkimiðar ef maður vill slá um sig en þó er ekki hægt að sjá að neinn beinan súrrealisma sé að finna í verkinu og einnig hæpið að flokka það sem absúrdverk þó að ytri og innri aðstæður karakteranna séu vissulega einkennilegar.

Mynd með færslu
 Mynd:
Ljósmynd: Hörður Sveinsson

Helsti galli verksins er einmitt þessi hugmyndafræðilega gúrkutíð og skortur á eiginlegri sögn. Skotspónninn virðist vera íslensk þjóðremba, karakterarnir tönnlast í sífellu á því hvað það sé yndislegt að búa á Íslandi og hvað íslenskar afurðir séu yfirburðagóðar. Þau dásama íslenska svínakjötið en átta sig ekki á íróníu þess að svínin séu alin á innfluttu fóðri og slátrað af erlendu vinnuafli, sömu Pólverjum og þau lýsa því yfir að geti aldrei orðið sannir Íslendingar. Þetta eru þó engar nýjar fréttir, íslensk þjóðremba sprettur nú upp í hverju horni eins og illgresi og við þurfum ekki einhverja hálfbakaða ádeilu til að benda á fáránleika hennar, við þurfum ekki nema að opna Facebook eða rölta niður á Austurvöll. Þá hefðu Jón Gnarr og Benedikt Erlingsson svo sannarlega ekki þurft að setja upp tveggja tíma langt leikrit til að koma þessum skilaboðum áleiðis, þeir Fóstbræður hefðu allt eins getað gert það í hnitmiðuðum tveggja mínútna skets.

Það er margt vel gert í uppsetningunni á Súper, útlit og umgjörð sýningarinnar er fagmannlega unnin. Leikmynd Gretars Reynissonar nýtur sín til dæmis vel, kjötkælirinn sem trónir á miðju sviði eins og ponta eða upphækkað svið virkar sem eins konar táknmynd fyrir verkið. Búningar Filippíu I. Elísdóttur ná að sama skapi að lífga upp á heildarmyndina og draga fram persónueinkenni hvers karakters fyrir sig. Þá skila leikararnir flestir sínum hlutverkum vel; Arnmundur Ernst og Snæfríður Ingvarsdóttir eru sérlega fyndin sem umhverfisvænu plastdúkkurnar Einar og Guðrún, sem og Hallgrímur Ólafsson í hlutverki mömmustráksins Hannesar. Sýningin sleppur þó aldrei undan frumheimildinni, handriti Jóns Gnarr, sem í þessu tilviki er einfaldlega ekki alveg nógu gott.

Tengdar fréttir

Leiklist

Sjálfsmyndin í svínakjötinu

Leiklist

Gott grín getur verið tragískt

Kvikmyndir

Bíóást: Mynd sem breytti viðhorfi og upplýsti

Myndlist

Upphlaup yfir eftirmynd