Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hugmynd um gæði sem lifir áfram

Mynd: RÚV / RÚV

Hugmynd um gæði sem lifir áfram

21.08.2019 - 14:05

Höfundar

Á Kjarvalsstöðum stendur yfir sýningin Alræði fegurðar. Þar má sjá verk breska hönnuðarins, skáldsins og róttæklingsins William Morris, sem kom tvisvar til Íslands á áttunda áratug 19. aldar.  

William Morris kom til Íslands árið 1871 og aftur árið 1873. Hann varð fyrir djúpum áhrifum sem birtist meðal annars í ljóðum hans, auk sem þess sem hann lærði íslensku og þýddi Íslendingasögur. Samhliða sýningunni stendur Listasafn Reykjavíkur fyrir fyrirlestrum þar sem sérfræðingar miðla þekkingu sinni um William Morris. Meðal þeirra er Sigríður Björk Jónsdóttir byggingalistfræðingur, sem byrjaði að kynna sér hann þegar hún var í námi í Essex á Englandi, þar sem hann fædddist. „Hann er þekktastur sem skáld og hönnuður, vann við það alla sína starfsævi. Hann rak fyrirtæki sem hannaði húsbúnað en síðari hluta starfsævinnar gerðist hann pólitískur og var einn af forvígismönnum breska verkamannaflokksins.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigríður Björk Jónsdóttir.

Íslandsferðir William Morris höfðu ekki mikil merkjanleg áhrif á hönnun hans en þeim mun meiri á skriftir og ekki síður pólitíska sýn hans og fagurfræðilega hugmyndafræði. „Það sem ég hef verið að skoða í þessu samhengi eru áhrif á hugmyndir hans um listina í samfélaginu; hugmyndina um að allir tækju þátt, sem endurspeglaðist líka í því að hann var mjög virkur í eigin fyrirtæki, hann var óhræddur við að fara á gólfið og skipta sér af og læra hlutina sjálfur,“ segir Sigríður Björk.

Af sýningunni Alræði Fegurðarinnar! á Kjarvalsstöðum sumar 2019.
 Mynd: RÚV

Morris sá íslenskt handverk í nokkrum ljóma andspænis iðnbyltingunni sem var að ryðja sér til rúms í Bretlandi. „Hann var mjög krítískur á hana; undir lok 19. aldar voru orðin ljós neikvæð áhrif verksmiðjuvæðingarinnar og leit á framleiðslufyrirtæki sitt sem andsvar við henni, með því að búa til gæðavörur sem voru unnar af alúð og gerðar til að endast og með fegurð að leiðarljósi. Það hafði mikil áhrif á hann þegar hann kemur til Íslands og sér á sveitabæjum þar sem fólk hafði varla til hnífs og skeiðar fallega útskorna gripi og silfurmunir. Hér var að vísu engin vélvæðing hafin að þessu leyti, þetta var því val heldur náttúrulegur hluti að fólk vann að list og handverki.“

Af sýningunni Alræði Fegurðarinnar! á Kjarvalsstöðum sumar 2019.
 Mynd: RÚV

Sigríður segist hafa heillast af því hvað Morris hafi verið fjölþættur en líka ákafur og innblásinn. Hugmyndir hans hafi líka gengið í endurnýjun lífdaga. „Enn þann dag í dag þar sem við erum að skoða fjöldaframleiðslu, umhverfismál og að hlutir séu gerðir til að endast, nota náttúruleg efni og allt þetta. Þetta er í rauninni allt það sem hann var að hugsa. Það eru ákveðin gæði í því sem hann var að gera og þau lifa áfram.“

Af sýningunni Alræði Fegurðarinnar! á Kjarvalsstöðum sumar 2019.
 Mynd: RÚV
Af sýningunni Alræði Fegurðarinnar! á Kjarvalsstöðum sumar 2019.
 Mynd: RÚV

Tengdar fréttir

Umhverfismál

Ólafur Elíasson tekur yfir veitingastað Tate

Myndlist

Myndaði meðgöngu í skugga geðhvarfa

Tónlist

Lifandi veggjalist í undirgöngum

Kópavogsbær

Tólf línur tákna stöðu sólar í Hamraborg