Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hugmynd um eitt sveitarfélag á Suðausturlandi

15.04.2016 - 13:14
Mynd með færslu
 Mynd: Þorvarður Árnason
Skaftárhreppur, Hornafjörður og Djúpivogur gætu stóraukið samvinnu og stefnt að sameiningu í eitt öflugt sveitarfélag á Suðausturlandi að mati bæjarstjórans á Hornafirði. Sérstök byggðaráð gætu tryggt sjálfræði einstaka byggðarlaga.

„Við erum svolítið afskekkt og einangruð bara út frá fjarlægðum okkar til næstu stóru staða. Þannig að ég held að það væri að mörgu leyti sterkt fyrir þessi sveitarfélög að skoða þann möguleika að auka sitt samstarf sem myndi þá leiða til hugsanlegrar sameiningar. Við getum aukið samstarf í sambandi við skóla. Við getum klárlega aukið samstarf í almennu utanumhaldi í þjónustu við íbúa. Í heilbrigðismálum, sorpi og svoleiðis hlutum. Svo er alltaf verið að tala um það að færa fleiri verkefni yfir til sveitarfélaga frá ríki og til þess að sveitarfélög séu í stakk búin til að taka við þeim þá þurfa þau að vera svolítið stærri,“ segir Björn Ingi Jónsson, bæjastjóri sveitarfélagsins Hornafjarðar.

Hann tekur fram að þetta séu hans eigin vangaveltur sem hann hafi rætt lauslega við forsvarsmenn Skaftárhrepps og Djúpavogs. Sameiningarhugmynd sé órædd innan bæjarstjórnar Hornafjarðar.

Hættur við sameiningu felist í því að minni kjarnar tapi sjálfræði en hægt sé að fyrirbyggja það með því að stofna sérstök byggðaráð. „Eins og ég horfi á dæmið þá myndu menn skilgreina í rauninni ákveðna verkþætti sem að byggðaráð hefði með að gera. Byggðaráð hefur síðan ákveðnar fjárheimildir sem þau gætu stýrt og stjórnað með. Í hvað fjármunum væri veitt á sínu svæði. Fulltrúar í byggðaráði væru síðan líka á bæjarstjórn yfir þetta stóra sveitarfélag. Þannig að það myndi tryggja þessa samlegð og samstarf og samþættingu innan alls stóra sveitarfélagsins,“ segir Björn Ingi.

Andrés Skúlason, oddviti Djúpavogshrepps, segist hlynntur meiri samvinnu sveitarfélaga og vill ekki útloka neina sameiningarmöguleika. Eva Björk Harðardóttir, oddviti Skaftárhrepps, segir málið órætt innan sveitarstjórnar en áhugi sé til staðar og hún telur æskilegt að viðræður fari af stað.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV