Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hugleysi að taka ekki afstöðu til mannréttinda

10.02.2017 - 08:20
Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands.
 Mynd: ruv  - ruv
Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands, sakar dómstóla um hugleysi með því að leggja ekki efnislegt mat á það hversu háar bætur ríkið greiðir öryrkjum. Máli konu, sem taldi lög brotin á sér, var vísað frá dómi í gær.

Hæstiréttur vísaði í gær frá dómi kröfu konu sem hefur verið öryrki á hæsta stigi örorku frá því hún lenti í bílslysi árið 1993. Hún höfðaði mál gegn ríkinu þar sem hún taldi örorkubætur ekki duga til að hún gæti lifað mannsæmandi lífi. Konan taldi að með því hefðu stjórnvöld brotið gegn stjórnarskrárákvæði um að ríkið skyldi tryggja öllum rétt til aðstoðar vegna örorku og annarra þátta.

Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands, lýsti megnri óánægju með dóminn í Morgunútvarpinu á Rás 2. „Þetta er ekki í fyrsta skipti sem dómstólar bara henda í raun og veru máli út úr réttarkerfinu án þess að það fái efnislega umfjöllun um þessi grundvallaratriði.“ Hún tiltók dæmi af átta ára heyrnarlausum dreng, hvers kröfu um námsefni við hæfi hafi verið vísað frá dómi. „Ég upplifi bara dómstóla huglausa að þora ekki að stíga inn í hring mannréttinda.“

Ellen sagði það vera algjört grundvallaratriði að dómstólar verndi mannréttindi sem kveðið sé á um í stjórnarskrá. Hæstiréttur taldi hins vegar að löggjafinn hefði sinnt skyldu sinni með því að setja lög um almannatryggingar. Konan væri í raun að krefjast þess að dómstólar ákvæðu bótafjárhæð. Það heyrði þó undir löggjafa en ekki dómstóla samkvæmt stjórnarskrá.

„Með þessari niðurstöðu er í raun verið að segja að mannréttindi séu algjört geðþóttamat löggjafa og stjórnvalda hverju sinni,“ sagði Ellen. „Ef löggjafinn og stjórnvöld geta ráðskast með mannréttindi að vild  án þess að dómstólar meti það einu sinni hvort réttindi hafi verið brotin þá er ekkert eftir af réttindunum.“

Uppfært 10:00 Í upphaflegri gerð sagði að drengurinn sem vísað er til væri blindur. Hann er heyrnarlaus.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV