Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Huga að skýli yfir Kútter Sigurfara

28.10.2012 - 13:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Bæjaryfirvöld á Akranesi kanna á næstunni möguleika á að reisa skýli yfir Kútter Sigurfara sem liggur undir skemmdum á safnasvæði bæjarins. Flýta á vinnunni til að freista þess að fá fjárveitingu á fjárlögum næsta árs.

Bæjaryfirvöld og safnamenn á Akranesi hafa undanfarið lýst miklum áhyggjum af því hvernig komið er fyrir Kútter Sigurfara sem hefur verið einn helsti sýningargripur Byggðasafnsins í Görðum. Skipið liggur undir skemmdum og hefur mönnum þótt ljóst að annað hvort þyrfti að bjarga því eða farga.

Fulltrúar Akranessbæjar fóru á fund í menntamálaráðuneytinu síðastliðinn föstudag. Sveinn Kristinsson, forseti bæjarstjórnar á Akranesi, segir að rætt hafi verið hvernig væri hægt að koma í veg fyrir frekari skemmdir á Kútter Sigurfara. „Menn voru nú svona á því að það væri helst hægt að gera það með því að gera eitthvert skýli, annað hvort bráðabirgðaskýli eða varanlegra skýli til að hlífa því við veðri og vindum og sól. Þetta eru þau náttúruöfl sem vinna á tréskipum þegar þau standa uppi á landi.“

Úr varð að Skagamenn eiga að koma með tillögur um hvernig sé hægt að koma Kútter Sigurfara í skjól og áætla kostnað við það verk. Sveinn segir að verkinu verði hraðað í von um að fjárveiting til verksins fáist jafnvel á næstu fjárlögum. Hann segir brýnt að koma skipinu sem fyrst í skjól, svo það skemmist ekki meira en þegar sé orðið, ella sé hætt við að það verði of seint að bjarga því.