Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Húðflúrsmynd sú áhrifamesta

Mynd: Stefán Karlsson / Stefán Karlsson

Húðflúrsmynd sú áhrifamesta

08.03.2018 - 09:30

Höfundar

„Blaðaljósmyndir geta verið listrænar og ljóðrænar yfir í „hardcore“ fréttamyndir. Það sýnir hversu fjölbreytt þetta starf er, þú veist í raun aldrei hvað þú ert að fara að gera þann daginn, gætir endað í hvernig verkefni sem er,“ segir Styrmir Kári Erwinsson ljósmyndari.

Styrmir situr í stjórn Blaðaljósmyndarafélags Íslands sem stendur fyrir sýningu á myndum ársins í Hörpu ásamt Canon og Origo á Íslandi. Þar má sjá 105 myndir sem valdar voru af óháðri dómnefnd úr 732 innsendum myndum. Þær endurspegla samfélagsumræðu og atburði seinasta árs og er fátækt, húsnæðisskortur og MeToo byltingin áberandi meðal umfjöllunarefna.

Ísland skorar eitt af 8 mörkun í 8-0 sigri
 Mynd: Kristinn Magnússon
Ísland skorar eitt af átta mörkum í 8-0-sigri - Íþróttamynd ársins 2017: Kristinn Magnússon, ljósmyndari Morgunblaðsins

Að sögn Heiðdísar Guðbjargar Gunnarsdóttur, annars stjórnarmanns Blaðaljósmyndarafélagsins vega sögur myndanna þungt í ákvörðun dómara. „Dómnefndin vildi vita söguna á bak við myndina. Ljósmyndari sendir alltaf inn texta með og í ár skipti til dæmis meira máli en í fyrra að það væri góð saga á bak við. Maður sér það á vinningsmyndunum í ár að þær endurspegla umræðu síðasta árs,“ segir hún.

Móðir gefur 4 daga gömlu barni brjóst og stóri bróðir passar upp á móður sína
 Mynd: Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdót
„Móðurást“ - Daglegt líf mynd ársins 2017: Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir, ljósmyndari Birtíngs

Dæmt var í 7 flokkum: fréttamyndir, daglegt líf, íþróttamyndir, portrettmyndir, umhverfismyndi, tímaritamyndir og myndaraðir.

Einfaldleikinn segir mikið

Vinningsmyndin í ár er eftir Stefán Karlsson, ljósmyndara á Fréttablaðinu og má sjá hér fyrir ofan. „Hún er af fjórum stelpum sem allar voru fórnarlömb Róbert Downeys. Þær eru að fá sér húðlúr, allar það sama: „I am the storm“. Dómnefndinni fannst þessi mynd ná að lýsa árinu 2017 þar sem þetta var stórt mál og felldi ríkisstjórn,“ segir Styrmir Kári. 

Leitin að Birnu Brjánsdóttur
 Mynd: Eyþór Árnason
„Leitin að Birnu Brjánsdóttur“ - Fréttamynd ársins 2017: Eyþór Árnason, ljósmyndari Fréttablaðsins.

Aðspurð hvort einhver mynd standi upp úr segir Heiðdís myndaröð um húsnæðisvanda vera sérlega áhrifamikla að sínu mati. „Ég var mjög hrifin af seríu Heiðu Helgadóttur sem fjallar um fólkið sem býr í Laugardalnum, það er einstaklega falleg sería. Svo finnst mér fréttamynd ársins, sem var tekin af Eyþóri Árnasyni, mjög góð líka. Hún er svona frekar óvenjuleg fréttamynd, frekar ljóðræn jafnvel þar sem hún segir rosa mikið með einfaldleika sínum.“