Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Huang Nubo hættir við fjárfestingar

26.11.2011 - 12:03
Mynd með færslu
 Mynd:
Kínverski fjárfestirinn Huang Nubo hefur fallið frá öllum áformum um fjárfestingar á Íslandi. Þetta eru viðbrögð hans við svari innanrikisráðherra um kaupin á Grímsstöðum á Fjöllum.

Halldór Jóhannsson umboðsmaður hans segir í samtali við fréttastofu að þetta séu mikil vonbrigði en Huang Nubo hafi talið sig vera í góðu samstarfi við íslensk stjórnvöld.

„Eins og mér var tjáð í morgun, eða í nótt, mun hann virða íslensk lög,“ segir Halldór, enda sé Huang bundinn af því í Kína að fara að íslenskum lögum. „Allt tal um framhjáleik er þess vegna ekki uppi á borðinu.“ Halldór segir að Huang muni íhuga málið en þátttöku hans í fjárfestingum á Íslandi sé lokið nema til komi frumkvæði frá íslenskum stjórnvöldum. Ákvörðun Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra og viðbrögð hans séu skilaboð um að þátttöku Huangs sé ekki óskað í fjárfestingum hér. Aldrei hafi verið haft samráð við Huang þrátt fyrir að hann hafi lýst sig reiðubúinn til viðræðna um fjárfestingar sínar.