„Þetta eru listamenn sem að ég hef haft hugann við lengi og langað að draga fram í dagsljósið, verk sem maður hefur vitað af en ekki fundið farveg en svo small þetta allt í þessari hugmynd,“ segir Markús Þór Andrésson, sýningarstjóri Myrkraverka.
„Þetta eru listamenn sem að ég hef haft hugann við lengi og langað að draga fram í dagsljósið, verk sem maður hefur vitað af en ekki fundið farveg en svo small þetta allt í þessari hugmynd,“ segir Markús Þór Andrésson, sýningarstjóri Myrkraverka.
„Myrkraverk er kannski neikvætt hugtak, tengist glæpum og einhverju svoleiðis, en við erum meira í orðaleiknum. Við erum á dimmasta tíma ársins og drögum fram þessi dularfullu og drungalegu og hryllilegu verk.“ Á sýningunni má sjá verk eftir Kristinn Pétursson, Ástu Sigurðardóttur, Sigurð Ámundason, Siggu Björg Sigurðardóttur, Alfreð Flóka og Jóhönnu Bogadóttur.
Markús segir myndirnar fjalla um myrkari hliðar mannlífsins; breyskleika mannsins, vankantar og ströggl, tilfinningauppnám, ónot og samfélagsmál.„ En þegar maður skoðar verkin í samhengi sér maður að sama hversu súrar myndirnar verða og hversu fáránlegur hugarheimurinn er er einhver undirtónn sem er sameiginlegur og það er mannleg tilvist; lífið, hvort það sem er einstaklingurinn að kljást við sjálfan sig eða samfélagið. Það er alltaf verið að fjalla um hið manneskjulega. Þessi huliðsheimur, þessi drungalegi heimur og fáránlegi myndheimur er bara yfirfærsla á þessu kunnuglega. Það er bara verið að reyna að myndgera eða formgera það sem er svo erfitt að fjalla um með berum orðum.“
Rætt var við Markús Þór og Jóhönnu Bogadóttur í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.