Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hryðjuverkin í Brussel: Það sem vitað er

22.03.2016 - 09:11
A woman is evacuated in an ambulance by emergency services after a explosion in a main metro station in Brussels on Tuesday, March 22, 2016. Explosions rocked the Brussels airport and the subway system Tuesday, killing at least 13 people and injuring many
Sjúkraflutningamenn flytja slasað fólk á brott frá jarðlestarstöð í Brussel í morgun. Mynd: AP
Stjórnvöld í Belgíu hafa hækkað öryggisviðbúnað í Brussel í efsta stig vegna sprengjuárása í borginni í morgun. Að minnsta kosti 28 er látnir og 90 eru alvarlega særðir eftir sprengingar á flugvellinum í Brussel og jarðlestarstöð í borginni. Minnst 13 létust þegar tvær sprengjur sprungu á Zaventem-flugvellinum í Brussel í morgun og 35 særðust. 15 létust og 55 eru sárir eftir að sprengja sprakk á jarðlestarstöð í borginni í morgun. Öllu samgöngukerfi borgarinnar hefur verið lokað.

Fréttin verður uppfærð:

Stjórnvöld í Belgíu hafa hækkað öryggisviðbúnað í Brussel í efsta stig vegna sprengjuárásanna. Gæsla við kjarnorkuver landsins hefur verið hert og lögregla og hermenn stöðva alla umferð við verin.

Samgöngukerfið lamað

Yfirvöld hafa beðið fólk um að vera ekki á ferðinni og öllu samgöngukerfi borgarinnar hefur verið lokað. Engar jarðlestir, lestir, sporvagnar eða strætisvagnar ganga í borginni. 

Óttast er að minnst 13 séu látnir og 35 eru slasaðir eftir að tvær sprengjur sprungu á Zaventem-flugvellinum í Brussel í morgun. 

Tengsl við hryðjuverkin í París

Ekkert er vitað hverjir stóðu að sprengingunum en aðeins eru fjórir dagar síðan lögreglan í Belgíu hafði hendur í hári Salah Abdeslam, mannsins á bak við hryðjuverkaárásirnar í París á síðasta ári þar sem 130 voru myrtir. Nokkrir samverkamenn Saleh Abdeslam  hafa verið handteknir síðustu daga, lögregla leitar annarra.

Gluggar brotnuðu í flugstöðvarbyggingunni við sprengingarnar sem urðu þar sem verið var að skrá farþega í flug American Airlines. Myndir hafa birst af flýjandi fólki frá tilræðissaðnum. Verið er að flytja farþega frá flugvellinum og lestarferðir þangað hafa verið stöðvaðar.

Flugi Icelandair aflýst

Innskráning í flug Icelandair frá flugvellinum var ekki hafin, samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu. Flugvél Icelandair átti að fara frá flugvellinum klukkan 13:00 að staðartíma. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að innritun hafi ekki verið hafin og flugfélagið hafi ekki upplýsingar um hvort farþegar þeirra hafi verið komnir út á flugvöll. Flugi sem átti að fara til Brussel frá Keflavík hafi verið aflýst

Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi innanríkisráðuneytisins, sagðist engar upplýsingar hafa um hvort einhverjir Íslendingar hefðu verið á flugvellinum þegar sprengurnar tvær sprungu. 

Sprengja í Maalbeek lestarstöðinni

Önnur sprengja sprakk á Maalbeek-lestarstöðinni í jarðarlestakerfi Brussel. Þar létust minnst 15 og 55 eru alvarlega sárir. Lestarstöðin er nærri höfuðstöðvum ESB. Búið er að loka öllu jarðlestakerfinu í borginni og í raun öllu samgöngukerfi borgarinnar.

Öryggisráðstafanir hertar víða í Evrópu

Öryggisráðstafanir hafa verið hertar verulega í Frakklandi. Á Charles de Gaulle flugvelli og lestarstöðvum hefur öryggisgæsla verið hert umtalsvert með áherslu á ferðir frá Brussel. Á flugvellinum í Orly og Toulouse hefur öryggisgæsla einnig verið hert. Lögreglumönnum hefur verið fjölgað verulega við samgöngumiðstöðvar í höfuðborginni, París.

Forsetinn Francois Hollande hélt í morgun neyðarfund með forsætisráðherra landsins og innanríkisráðherra.  Innanríkisráðherra landsins hefur tilkynnt að 1600 lögreglumenn til viðbótar verði sendir til gæslu við landamæri og samgöngumiðstöðvar landsins.

Öryggisráðstafanir hafa einnig verið hertar í Hollandi á lestarstöðvum og flugvöllum. Gæsla við landamærin að Belgíu hefur einnig verið hert verulega. Öryggisgæsla í Bretlandi hefur verið hert verulega við flugvelli og aðra viðkvæma staði hvað öryggi ríkisins varðar. Öryggi hefur verið hert víðast hvar í álfunni.

Hlutabréf falla í Evrópu

Hlutabréf lækkuðu í verði þegar markaðir í Evrópu voru opnaðir í morgun. FTSE vísitalan í Lundúnum lækkaði um 0,6 prósent við opnun markaða, þýska DAX vísitalana um 1,1 prósent og CAC vísitalan í París um 0,7 prósent. Mike van Dulken, yfirmaður rannsóknar hjá Accendo Markets, segir að sprengingin á flugvellinum í Brussel hafi haft mikil áhrif á viðhorfin á markaði. Hlutabréf í flugfélögum og samgöngufyrirtækjum hafa lækkað skarpt frá því að markaðir voru opnaðir.