Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hrunið, traust og gagnsæi

03.10.2018 - 13:03
Mynd:  / 
Vantraust á yfirvöldum hefur víða aukist eftir fjármálarhremmingarnar 2008. Erlendis er vantraustið meðal annars rakið til hægfara hagvaxtar en einnig af því stjórnmálamenn og yfirvöld hafa ekki beitt sér fyrir rannsóknum á starfsemi banka. Á Íslandi er þessu þveröfugt farið: hagvöxtur nokkuð fljótur að taka við sér og hrunmál rannsökuð en samt er skortur á trausti. Kannski af því gagnsæi er enn hörgulvara samkvæmt nýrri skýrslu um traust.

Íslenska búsáhaldabyltingin, niðurskurðarmótmæli á Írlandi

Búsáhaldabyltingin setti svip á veturinn eftir bankahrunið í október 2008. Mótmælin beindust að ríkisstjórninni, alþingi og Seðlabankanum. Ráðvillt þjóð í vanda rann þó á lýðræðislegu lausnina, kosningar vorið 2009.

Haustið 2008 horfðu Írar einnig upp á sína þrjá stærstu banka komast í þrot. Írska stjórnin taldi ríkið geta bjargað bönkunum en sprakk á limminu 2010 og þáði neyðarlán. Allt þetta kostaði niðurskurð og harðræði sem almenningur mætti með mótmælum alveg fram á 2015.

,,Helvítis…” og Occupy 

Á Íslandi reyndu menn líka að sjá skoplegu hliðar mótmælanna líkt og heyrðist eftirminnilega í Áramótaskaupi hrunársins:

Haustið 2011 spruttu upp mótmælahreyfingar í Bandaríkjunum og Bretlandi, Occupy Wall Street og Occupy London. Mótmælin beindust að bönkum og stjórnmálamönnum sem þóttu of linir við fjármálastofnanir og andvaralausir um vaxandi ójöfnuð.

Hvert alþjóðlega bankahneykslið, engar rannsóknir

Á árunum eftir 2008 afhjúpaðist hvert alþjóðlega bankahneykslið eftir annað: vaxtasvindl, gjaldeyrissvindl og peningaþvætti. Bankar voru sektaðir, varla nokkuð rannsakað, varla nokkur dreginn til ábyrgðar. Reiði almennings í garð banka og yfirvalda og þar með minna traust, þótti skiljanlegt: bankar hefðu leitt hremmingar yfir einstök lönd án þess að starfsemi þeirra og möguleg lögbrot einstaklinga væri rannsakað. 

Nýlega rakti Financial Times að á heimsvísu hefðu 47 bankamenn verið dæmdir í fangelsi eftir hrunið – rúmlega helmingur þeirra, eða 25, frá einu landi, Íslandi. Þetta er það sem Ísland eftir hrun er þekkt fyrir – að starfsemi bankanna var rannsökuð, bankamenn dregnir fyrir dóm.

Því betri efnahagur, því meira traust – gildir ekki á Íslandi

Í viðtali í Speglinum nýlega nefndi Sjöfn Vilhelmsdóttir forstöðumaður Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands að staða efnahagsmála hefði almennt mikil áhrif á traust almennings á yfirvöldum: því betri efnahagur, því meira traust. 

Forsendur sem skýra skort á trausti erlendis gilda ekki á Íslandi

Í viðbót við sakamálarannsóknir og ítarlega rannsóknarnefndarskýrslu 2010 til að skýra alla þætti hrunsins var Ísland tiltölulega fljótt að rétta úr kreppukútnum, samdráttur snerist í vöxt þegar um mitt árið 2011. En nei, þrátt fyrir góðæri og uppsveiflu undanfarin misseri, góðar forsendur trausts, er reyndin öll önnur. 

Vantraust á stjórnmálamönnum er áberandi á Íslandi, birtist til dæmis í tíðum kosningum og flokkum sem koma og fara. Vantraustið er meira og viðvarandi á Íslandi en á Norðurlöndum – á þetta er bent í nýrri skýrslu starfshóps á vegum forsætisráðherra um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu:

Bætt efnahagsástand í landinu gefur við fyrstu sýn ástæðu til að ætla að traust á stjórnvöldum vaxi í kjölfarið en það hefur ekki orðið. Þannig má segja að traust Íslendinga til stjórnmála skeri sig úr. Það er ekki í samræmi við traust á öðrum sviðum og það er ekki í samræmi við efnahagslega stöðu samfélagsins í heild.

Íslendingar telja spillingu á íslandi – en stjórnmálamenn taka spillingarvarnir ekki alvarlega

Í skýrslunni er bent á að eitt atriði grafi áberandi undan trausti: rúmlega 70 prósent Íslendinga telja spillingu í stjórnkerfinu og atvinnulífi vera mikla eða frekar mikla. En andvaraleysi yfirvalda er sláandi: alþjóðastofnanir eins og OECD og GRECO hafa um árabil bent á hvað íslensk stjórnvöld taka áberandi lítið tillit til tilmæla og leiðbeininga um varnir gegn spillingu. 

Spilling ekki í stórum málum heldur óræðum tengslum

Íslensk spillingarmál tengd stjórnmálamönnum eða stjórnkerfinu hafa þó varla komið upp. Hvorki stjórnmálamenn né dómarar til dæmis orðið uppvísir að því að þiggja mútur. Íslendingar sjá hins vegar ákveðin form spillingar, eins og bent er á í traustskýrslunni:

Þegar Íslendingar eru spurðir hvort mikilvægt sé að hafa tengsl við stjórnmálamenn til að komast áfram í lífinu kemur í ljós að helmingur telur að svo sé, umtalsvert fleiri en á öðrum Norðurlöndum.

Írland: landlæg spilling, stórfelld spillingarmál

Á Írlandi hefur spilling verið landlæg og áþreifanleg í áratugi. Á veðhlaupum gaukuðu verktakar peningaumslögum að sveitastjórnarmönnum fyrir lóðaívilnanir. Bertie Ahern varð að segja af sér sem forsætisráðherra þegar hann gat ekki útskýrt hvernig hann fjármagnaði fasteignakaup. Það eru engar svona sögur á Íslandi. Þar er spillingin tilfinning sem virðist byggjast á skorti á gagnsæi. Og skortur á gagnsæi er alls staðar liður í spillingu. 

Gagnsæi, Borgun og Bakkavör

Sala ríkisbankans Landsbankans á Borgun leiddi til þess að ríkið varð af allt að einum milljarði króna sem féll þá einstaklingum í skaut. Og ríkið kann að hafa orðið af 2,6 milljörðum þegar Arion seldi hlut í Bakkavör til fyrrum eigenda Bakkavarar.

Hrunrannsóknir og -skýrsla, efnahagsbati og uppsveifla á Íslandi hafa ekki dregið úr vantrausti eins og ætla mætti. Ein sterkasta lýðræðiskrafa samtímans er krafa um gagnsæi og það virðist vanta á Íslandi. Í traustskýrslunni er bent á mikilvægi þess að stjórnmálamenn sýni vilja á auknu gagnsæi og hreinskiptni.

Leiðandi einstaklingar í stjórnmálum og stjórnsýslu geta ekki leyft sér að hrökkva í vörn þegar að þeim er sótt og þurfa að hafa í huga að viðbrögð þeirra eru fordæmisgefandi. 

 

 

 

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir