Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Hrunamannahreppur

02.05.2014 - 11:49
Mynd með færslu
 Mynd:
Mörk sveitarfélagsins hafa verið óbreytt frá árinu 1950. Íbúar hreppsins felldu sameiningu allra sveitarfélaga í uppsveitum Árnessýslu árið 1993 og einnig sameiningu við Skeiða- og Gnúpverjahrepp, Grímsnes- og Grafningshrepp og Bláskógabyggðar árið 2005.

Íbúar voru 785 um síðustu áramót og hefur íbúafjöldinn haldist nokkuð svipaður á kjörtímabilinu. Tæplega helmingur íbúanna býr í stærsta þéttbýliskjarnanum, Flúðum.

Framboðsmál

Tveir listar voru í framboði í kosningunum árið 2010. H-listinn sigraði, fékk þrjá fulltrúa í hreppsnefnd, og Á-listinn hlaut tvo. Báðir listarnir bjóða fram aftur.

Helstu mál

Kjörtímabilið hefur einkennst af töluverðum framkvæmdum, einkum í viðhaldi. Bæði skólinn og sundlaugin hafa verið lagfærð. Þá var í vetur ákveðið að stækka íþróttahúsið þannig að það væri í löglegri keppnisstærð. Sú framkvæmd er nú komin af stað og er stefnt að því að húsið verði tilbúið á næsta ári. Þetta er fyrsta stóra framkvæmdin í sveitarfélaginu um nokkurt skeið.

Þá er einnig unnið að skipulagi á miðsvæði Flúða. Kosið var um það í síðustu sveitarstjórnarkosningum hvernig gatnamótin inn í Flúðahverfið ættu að vera og var samþykkt þar að gera hringtorg. Skipulagið hefur verið unnið með það í huga.

Mikil ferðaþjónusta er í Hrunamannahreppi, bæði í tengslum við sumarbústaði í sveitarfélaginu og tjaldsvæðið á Flúðum. Sérstaða hreppsins er hins vegar að meirihluti ferðamanna þar eru Íslendingar. Töluverð uppbygging er fyrirhuguð á því sviði, meðal annars verður hótelið stækkað. Þá opnar gamla sundlaugin á ný í vor, sem er sögufræg laug, en hún var byggð árið 1891 og var notuð sem kennslulaug árum saman. „Hún hefur verið í niðurníðslu undanfarin ár en nú er verið að laga hana og þarna verður opnuð náttúrulaug þegar framkvæmdum lýkur. Þetta verður mjög spennandi fyrir ferðamenn sem hingað koma,“ segir Ragnar Magnússon, oddviti Hrunamannahrepps.

Fyrir utan ferðaþjónustuna er matvælaframleiðslan aðall sveitarfélagsins. Sauðfjárrækt og mjólkurframleiðsla er mikið stunduð þar, og til að mynda hefur mjólkurframleiðsla aukist um 50% þar síðustu tuttugu árin, þrátt fyrir að kúabúum hafi fækkað um 50% á sama tíma. En garðyrkjan er stóri atvinnuvegurinn en í hreppnum er framleitt mikið af grænmeti og sveppum. Sveitarfélagið hefur meðal annars tekið þátt í baráttu fyrir því að garðyrkjubændur greiði lægra verð fyrir raforkuna en samningaviðræður við RARIK hafa gengið treglega. Því hefur verið gripið til þess ráðs að stofna sérstakt raforkufyrirtæki og er ætlunin að það leggi eigin lagnir sem tengi stærstu notendurna við dreifikerfið. Enn er þó stefnt að því að ná ásættanlegum samningum við RARIK.

Fjármál

Mikil vinna hefur farið í það á þessu kjörtímabili að ná böndum á fjárhag sveitarfélagins. Fjárhagsáætlun þessa árs gerir ráð fyrir ríflega tuttugu milljóna króna rekstrarafgangi, sem er töluvert meiri afgangur en á síðasta ári. Hins vegar er gert ráð fyrir auknum skuldum á þessu ári, sem er að miklu leyti tilkomið þar sem taka þarf lán fyrir framkvæmdunum við íþróttahúsið. Skuldahlutfallið verður þó langt undir lögbundnum mörkum, eða 87,5%. Oddviti sveitarfélagsins telur fjárhagsstöðuna góða núna.

Sameiningar

Hrunamannahreppur tekur þátt í könnun meðal sveitarfélaga í uppsveitum Árnessýslu um sameiningu. Að öðru leyti hafa engar formlegar viðræður verið um sameiningu á þessu kjörtímabili. Hrunamannahreppur hefur kosið þrisvar um sameiningu á síðustu árum, tvisvar hefur sveitarfélagið samþykkt sameiningu en það strandað á öðrum sveitarfélögum en síðasta felldi hreppurinn sameiningu.

Ragnar segir að í þessum efnum sé gott að vita hvað íbúarnir eru að hugsa. „Það getur verið að það sé meirihlutavilji fyrir sameiningu en samningurinn er kannski ekki þannig að íbúar vilji samþykkja hann. Menn samþykkja ekki sameiningu á hvaða forsendum sem er.“ Ragnar segir að sveitarfélögin í Árnessýslu séu dugleg að vinna saman. Meðal annars séu þau með sameiginlegan ferðamálafulltrúa, skipulags- og byggingarfulltrúa og velferðarþjónustu, þar sem málefni fatlaðra eru meðal annars fóstruð.