Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Hrossum slátrað vegna heyskorts

09.11.2011 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Yfirvofandi heyskortur veldur því að hrossabændur í Skagafirði þurfa að slátra hrossum í mun meira mæli en áður. Löng bið hefur myndast eftir hrossaslátrun hjá sláturhúsinu á Sauðárkróki.

Kalt vor og vætusamt sumar ollu því að heyskapur var mun seinna á ferðinni hjá bændum á norðan- og austanverðu landinu en venjulega. Hjá mörgum bændum var heyfengur mun minni en áður og þeir sjá nú ekki fram á að eiga hey fyrir allan bústofninn í vetur. Því hafa hrossabændur í Skagafirði gripið til þess ráðs að slátra hrossum sem annars hefðu verið látin lifa og fækka þannig gripum á fóðrum.

„Þetta á nú ekki við alla, það var merkilega mismunandi milli bæja hvernig heyfengur var. En maður heyrir að menn verða að fækka og sumir þurfa kannski að ganga nær því en æskilegt væri,“ sagði Ingimar Ingimarsson formaður Hrossaræktarsambands Skagfirðinga.

Hrossaslátrun er rétt að hefjast hjá sláturhúsi KS á Sauðárkróki og mun fleiri hross hafa verið skráð til slátrunar en áður og löng bið orðin eftir slátrun. Ingimar segir að fleira en heyskortur hjá bændum valdi því að þeir vilji fækka hrossum sínum, en sala lífhrossa til útlanda hafi minnkað verulega.

„Þær hafa haft sín áhrif þessar hremmingar sem bæði við og nágrannalöndin hafa verið að ganga í gegnum. Það er kreppa á Íslandi og víðar,“ sagði Ingimar að lokum.