Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hrólfur hættir sem framkvæmdastjóri Framsóknar

27.04.2016 - 13:46
Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós - RÚV
Hrólfur Ölvisson hefur ákveðið að hætta sem framkvæmdastjóri flokksins frá og með deginum í dag. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem birtist á vef Framsóknarflokksins. „Þetta er persónuleg ákvörðun mín og á engan hátt viðurkenning á því að ég hafi brotið lög eða starfað með óheiðarlegum hætti,“ segir í yfirlýsingu Hrólfs.

Hrólfur segir enn fremur að hann telji sig hafa svarað spurningum blaðamanna á fullnægjandi hátt. „Því hefur ranglega verið haldið fram að ég hafi keypt hlutafé í BM Vallá með tortryggilegum hætti.  Arion banki bauð BM Vallá til sölu í opnu söluferli sem félag mitt ásamt öðrum fjárfestum tók þátt í.  Að bendla þau kaup við aflandsfélög er alfarið rangt.“

Hann kveðst draga sig í hlé til að koma í veg fyrir að rýrð verði kastað á Framsóknarflokkinn og þau góðu störf sem hann hefur unnið í tíð þessarar ríkisstjórnar. „Ég er ekki kjörinn fulltrúi en tel þetta engu að síður rétta ákvörðun.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV