Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hröktu tvær rússneskar herflugvélar í burtu

28.03.2019 - 18:32
Mynd með færslu
Orrustuflugvél ítalska flughersins sem sinnti loftrýmisgæslu við Ísland. Mynd: Giovanni Colla
Tvær rússneskar sprengjuflugvélar af gerðinni Tupolev Tu-142 (Bear F) flugu inn í loftrýmiseftirlitssvæði Atlantshafsbandalagsins (NATO) hér við land í gærkvöldi.

Ítölsku orrustuþoturnar tvær sem eru staðsettar hér á landi við loftrýmisgæslu voru sendar af stað til þess að auðkenna þessar flugvélarnar tvær sem voru óþekktar þegar þær birtust á ratsjám. Rússnesku vélarnar höfðu hvorki tilkynnt sig til flugumferðarstjórnar né voru með ratsjárvara í gangi.

Frá þessu er greint í frétt á vef Stjórnarráðsins í dag. Þetta er í annað sinn í þessum mánuði sem rússneskar sprengjuflugvélar fljúga inn fyrir mörk loftrýmiseftirlitssvæðis NATO við Ísland.

Í frétt Stjórnarráðsins er haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra að þetta sé til marks um aukin hernaðarumsvif Rússlands við Ísland.

„Þetta atvik kemur upp þegar ítalski flugherinn er á Íslandi við loftrýmisgæslu, öll viðbrögð hans voru í fyllsta samræmi við vinnureglur Atlantshafsbandalagsins. Atvikið staðfestir enn einu sinni mikilvægi loftrýmiseftirlits og loftrýmisgæslu hér á landi,“ segir Guðlaugur.

Loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins við Ísland stendur nú yfir en flugsveit ítalska flughersins kom hingað til lands fyrir nokkru. Verkefnið heyrir undir svæðisstjórnstöð Atlantshafsbandalagsins í Uedem, Þýskalandi (Combined Air Operations Center) en Landhelgisgæsla Íslands ber ábyrgð á framkvæmdinni hérlendis, í samvinnu við Isavia. Ítalska flugsveitin er með fjórar Eurofighter Typhoon EF-2000 orrustuþotur.

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV