Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Hroki og yfirlæti forsætisráðherra

25.05.2013 - 14:29
Mynd með færslu
 Mynd:
Ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra um að athugasemdir almennings vegna Rammaáætlunar hafi mest megnis verið ein og sama athugasemdin lýsa fádæma hroka og yfirlæti í garð almennings segir Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.

Forsætisráðherra sagði í þættinum Vikulokunum að þær 400 athugasemdir sem hefðu borist vegna Rammaáætlunar hefðu mest megnis verið sama athugasemdin. Þingmenn fengju oft sendan sama textann frá nokkur hundruð netföngum eða heimilisföngum.

Þessu andmælir Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands. „Það er í fyrsta lagi ekki rétt. Og í öðru lagi lýsa þessi ummæli fádæma hroka og yfirlæti í garð almennings,“ segir Árni og bætir við. „Það er tíðkað alls staðar í hinum lýðræðislega heimi að samtök um náttúruvernd, mannréttindi eða annað hvað kann að vera reyna að virkja almenning fyrir sinn málstað með þessum hætti. Það var þarna gert.“

 

Almenningur vill vernda náttúru landsins

Það séu þó ekki aðeins athugasemdirnar sem endurspegli vilja almennings, heldur birtist hann einnig í skoðanakönnunum. „Það kom líka fram við þetta tækifæri að rúmlega meirihluti þjóðarinnar, rúmlega meirihluti þeirra sem voru aðspurðir, styðja stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands. Það hefur komið fram í mörgum öðrum skoðanakönnunum að almenningur hefur mjög ríkan vilja til að vernda náttúru landsins, er á móti stóriðju, og ég skil bara ekki hvernig forsætisráðherra leyfir sér að tala niður til fólks með þessum hætti.“

Árni leggur áherslu á að ekki hafi verið um samhljóma athugasemdir að ræða. Til dæmis hafi Norður-Atlantshafs laxveiðisjóðurinn komið fram með einstaka tillögu um búsvæði laxa í Þjórsá. Það hafi ef til vill ráðið mestu um að virkjanir í neðri hluta Þjórsár hafi verið færðar í biðflokk. „Forsætisráðherra veit greinilega ekkert hvað hann er að tala um.“

 

Ný stjórn gegn náttúruvernd

Orð hans, orð hins nýja umhverfis-, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og fleiri benda til þess að þessi ríkisstjórn hyggist beita sér mjög gegn náttúruvernd,“ segir Árni um ummæli forsætisráðherra í Vikulokunum. Hann á þó ekki von á að ráðist verði í gríðarlegar virkjanir og stóriðju. „Það er svo aftur annað mál. Ég held að almenningur sé ekki mjög ginnkeyptur fyrir svona ævintýrum eins og Kárahnjúkavirkjun var.“