Hríseyingar ekki verslunarlausir lengur

Mynd með færslu
 Mynd: visitakureyri.is - Akureyri

Hríseyingar ekki verslunarlausir lengur

05.06.2015 - 13:26

Höfundar

Hríseyingar stökkva ekki upp í bíl og út í búð segir stofnenda nýrrar verslunar sem opnar í Hrísey á morgun. Eyjan hefur verið verslunarlaus síðastliðna þrjá mánuði.

Það var í byrjun mars sem Júlíus Freyr Theódórsson, sem rekið hefur verslunina Júllabúð í Hrísey undanfarin ár, ákvað að hætta rekstri verslunarinnar. Nokkrir íbúar eyjarinnar kölluðu í kjölfarið saman íbúafund og kynntu áform um stofnun hlutafélags til reksturs nýrrar verslunar. Linda María Ásgeirsdóttir, starfsmaður Ferðamálafélagsins í Hrísey og einn stofnenda hlutafélagsins segir að verslunarleysið hafi reynt á íbúa. „Það var bara rosalega erfitt. Það er eiginlega bara staða sem nánast gengur ekki upp. Það er alveg sama hvar það er. Við náttúrulega erum líka svolítið langt frá öllu, þannig að við stökkvum ekkert upp í bíl og út í búð,“ segir Linda.

Hafa áður kynnst verslunarleysi
Hún segir þetta ekki vera í fyrsta sinn sem eyjaskeggjar eru verslunarlausir, áður en Júllabúð opnaði var engin verslun starfrækt á eynni í nokkra mánuði. „Við vorum ekkert búin að gleyma því þannig við fórum strax af stað og það er bara búið að ganga alveg ótrúlega vel,“ segir Linda. Í byrjun maí var stofnað hlutafélag um verslunarreksturinn en alls söfnuðust 3,8 milljónir króna í hlutafé. Fimmtíu og fimm manns eru hluthafar í versluninni sem hefur hlotið nafnið Hríseyjarbúð.

Margir hafa hjálpað
Linda segir marga hafa lagt hönd á plóg við að gera verslunina tilbúna. „Svo er náttúrulega ótrúlega mikið af fólki búið að koma í sjálfboðavinnu og hjálpa okkur við að mála og þrífa og bónleysa og bóna. Það er bara alveg ómetanlegt,“ segir Linda.

Mikil eftirvænting ríkir fyrir opnuninni sem verður klukkan 16 á morgun. „Það er mikill spenningur. Sjómannadagsdagskráin hjá okkur er alltaf á laugardeginum þannig þetta verður svona skemmtileg viðbót,“ segir Linda. 

Tengdar fréttir

Neytendamál

Söfnuðu 3 milljónum fyrir verslun í Hrísey