Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hrísey: „Meiri bjartsýni en verið hefur“

31.01.2019 - 17:16
Mynd með færslu
 Mynd:
Hríseyingar eru almennt jákvæðari en áður gagnvart brothættum byggðum og aukinn kraftur verður settur í verkefnið á þessu ári. Fjölmenni var á íbúafundi í gær.

Byggðaþróunarverkefnið brothættar byggðir hófst í Hrísey 2015 en þátttöku þeirra lýkur um næstu áramót. Árlega er haldinn stöðufundur með íbúum um verkefnið. „Þetta var bara góður fundur í gær. Það var góð mæting, það voru þarna 40 manns samankomnir, málefnalegar umræður og margar áhugaverðar hugmyndir sem voru ræddar,“ segir Helga Íris Ingólfsdóttir, verkefnastjóri brothættra byggða í Hrísey og Grímsey. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Frá fundinum í gær

Hríseyingum fannst verkefnið skila litlu á fyrstu stigum og gagnrýndu þeir framkvæmdina árið 2017. Helga segir að fjölmörg markmið hafi náðst síðan þá og fyrir vikið sé meiri jákvæðni. „Mér fannst meiri bjartsýni en verið hefur og meiri hugur í fólki til þess að taka annan vinkil í umræðuna,“ segir Helga Íris. 

Lítið fjármagn sem fylgir

„Þetta er ekkert einsdæmi í Hrísey að fólk hafi orðið fyrir vonbrigðum með hvernig hefur spilast úr þessu. Auðvitað býst fólk við meiru þegar farið er út í svona verkefni á vegum ríkisins. Það fylgir þessu frekar lítið fjármagn í rauninni, þetta eru örfáar milljónir á ári sem við fáum til að veita í styrki,“ segir Helga Íris. „Svo snýst þetta meira um samstöðu og vilja íbúanna og þeirra framtíðarsýn heldur en nokkurn tímann einhverja utanaðkomandi aðstoð beint,“ segir Helga Íris. 

Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason - RÚV
Frá Hrísey

Stefnan er að bæta enn frekar í á þessu ári, einkum í markaðssetningu á svæðinu. Bæjarfulltrúar á Akureyri fjölmenntu á fundinn í gær. Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar, er sammála því að hljóðið í íbúum sé betra en áður. „Nú er auðvitað komin meiri reynsla á verkefnið og það var bjartsýni á að þetta myndi skila raunverulegum árangri," segir Halla Björk. 

Vilja laða að fjárfesta

Bæjarstjórn hyggst gera átak í markaðssetningu á sveitarfélaginu og segir Halla að leggja eigi sérstaka áherslu á Hrísey og Grímsey. Markmiðið sé að fjölga ferðamönnum í eyjunum og höfða til fjárfesta sem gætu hugsað sér að nýta sérstöðu þessara byggða og byggja upp starfsemi. 

Nokkur verkefni hafa komist á koppinn síðan Hríseyingar hófu þátttöku í brothættum byggðum. Ný fyrirtæki, til dæmis saltvinnsla, gistiheimili og veitingahús hafa litið dagsins ljós og þá hefur verið stutt við rekstur verslunarinnar.

Stuðningurinn hafði úrslitaáhrif

Kristinn Frímann Árnason, sem býr í Hrísey, er að hefja eggjaframleiðslu með landnámshænum með styrk frá brothættum byggðum. „Þetta var hugmynd sem kviknaði 2013 en lá svona í dvala en svo kom þetta verkefni upp og þessi stuðningur og þá datt okkur í hug að prófa að ýta úr vör og kanna styrki. Það kom okkur af stað, við hefðum ekki farið í þetta annars, ef þetta hefði ekki komið til," segir Kristinn.

Mynd með færslu
 Mynd:
Kristinn Frímann Árnason

„Nú erum við að fá búnað um mánaðamótin febrúar-mars frá Þýskalandi sem á að þjóna 1.500 hænum. Þetta er sjálfvirkt fóðurkerfi, brynning og varpaðstaða fyrir hænur, og búinn að fá vilyrði eða lánsloforð frá Byggðastofnun varðandi það verkefni. Það gæti orðið til þess að skaffa eitt eða tvö störf, vonandi í lok þessa árs,“ segir Kristinn.