Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hrinunni virðist lokið að mestu

03.10.2016 - 16:43
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Skjálftahrinu í Mýrdalsjökli sem hófst á fimmtudaginn var virðist að mestu lokið. Mjög hefur dregið úr virkni frá því hún var hvað mest á föstudag. Vísindaráð almannavarna kom saman í dag þar sem ákveðið var að hleypa umferð að Sólheimajökli og leyfa gönguferðir þangað en óvissustigi var ekki aflétt.

Segir í fundargerð Vísindaráðsins að ef litið er til virkni síðustu tvo mánuði sé ljóst að hún hafi verið miklu meiri síðustu tvo mánuði en undanfarin ár en óljóst sé hvort virknin verður áfram mikil eða hvort nú fer að draga úr henni. Ástæður skjálftanna eru taldar kvikuhreyfingar í efstu kílómetrum jarðskorpunnar en hvorki sjáist ummerki um þær í yfirborði jökulsins né sýni vatnamælingar breytingar sem tengja megi við hrinuna.