Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hringtengingu ljósleiðara á Vestfjörðum lokið

01.12.2016 - 15:16
Mynd með færslu
 Mynd: Kynning & Útgáfa
Hringtengingu ljósleiðara á Vestfjörðum er lokið. Fyrir skömmu lauk lokaáfanganum í hringtengingunni í Ísafjarðardjúpi og þannig var hringnum um Vestfirði lokað. Samhliða ljósleiðaranum hefur verið lagður þriggja fasa rafstrengur í jörð.

Með verkefninu styrkjast innviðir Vestfjarða mikið, orkuöryggi eykst og fjarskipti eflast sem og öryggi íbúa og vegfarenda. Verklok eru jafnframt forsendur fyrir því tengja má heimtaugar við ljósleiðarann en Súðavíkurhreppur fékk styrk fyrir tengingum við ljósleiðara síðasta vor og er stefnt á að vinna hefjist á vormánuðum. Pétur Markan, sveitarstjóri í Súðavík, segist jafnframt binda vonir við að þá megi tengja sömu bæi við þriggja fasa rafmagn. Pétur telur að þrátt fyrir að dregið hafi úr búskap í Djúpinu séu ragmagn og fjarskipti lykilatriði í allri starfsemi, bæði búskap og ferðaþjónustu.

Fjarskiptasjóður, Orkubú Vestfjarða, Míla, Fjórðungssamband Vestfirðinga, Öryggisfjarskipti sem er í eigu ríkisins og Neyðarlínunnar, komu að verkefninu. Fyrri hluti lokaáfangans fór fram sumarið 2015 þegar lagður var ljósleiðari og rafmagnsstrengur úr botni Hrútafjarðar norður á Hólmavík. Seinni áfanginn var í nokkurri óvissu eftir að einungis eitt tilboð barst í lagninguna, langt yfir kostnaðaráætlun. Sá hluti var í Ísafjarðardjúpi og málið leystist þegar ákveðið var að Neyðarlínan kæmi að verkefninu.

Bundnar eru vonir við að með ljósleiðaratengingu megi efla atvinnulíf á Vestfjörðum. Með lagningu rafstrengs í jörð, í stað loftlína, er dregið úr líkum á að íbúar og atvinnulíf verði án rafmagns ef kemur til truflana að sökum veðurs eða annarra áfalla.

Áætlað er að heildarkostnaður við verkið nemi um 900 milljónum króna.