Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hringlið heldur áfram: CLN-málið aftur í hérað

06.11.2018 - 11:55
Mynd með færslu
 Mynd: Fréttastofa - RÚV
Héraðsdómi Reykjavíkur ber að taka eitt stærsta hrunsakamálið, svokallað CLN-mál, til efnismeðferðar, þvert á fyrri niðurstöðu dómsins, sem vísaði því frá. Landsréttur hefur fellt frávísunina úr gildi og segir að ákveði saksóknari að mál sé nægilega rannsakað til útgáfu ákæru og efnismeðferðar fyrir dómi sé það ekki dómstóla að endurmeta.

Saga CLN-málsins er orðin löng og þvæld. Málið er eitt stærsta hrunmálið sem ákært var í. Það varðar rúmlega 70 milljarða króna lánveitingar út úr Kaupþingi til nokkurra félaga í viðskipti með svokölluð lánshæfistengd skuldabréf, sem á ensku kallast Credit Linked Notes – þaðan er CLN-heitið fengið.

Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson og Magnús Guðmundsson voru ákærðir fyrir umboðssvik í maí 2014 en sýknaðir í héraði í janúar 2016. Ákæruvaldið áfrýjaði til Hæstaréttar, en áður en málið var tekið fyrir þar kom upp úr dúrnum að Deutsche Bank, sem var mikilvægur hlekkur í fléttunni, hafði samið við gamla Kaupþing um greiðslu á rúmum fimmtíu milljörðum, stórum hluta upphaflegu lánsfjárhæðarinnar.

Samkomulagið var gert um svipað leyti og málið var til meðferðar í héraði en hvorki sakborningarnir né saksóknarinn fréttu af því fyrr en í fréttaskýringarþættinum Speglinum á RÚV og verjendur fóru í kjölfarið fram á það fyrir Hæstarétti að þetta yrði rannsakað betur. Af hverju gerði Deutsche bank þetta samkomulag? Og var féð þá alls ekki allt tapað eins og fullyrt var í ákæru?

Mynd með færslu
Björn Þorvaldsson saksóknari. Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Björn Þorvaldsson.

Hæstiréttur féllst á þau rök þeirra að þetta gæti haft mikla þýðingu fyrir málið, skipaði saksóknara að grafast fyrir um samninginn og málið skyldi svo rekið upp á nýtt í héraði. Saksóknarinn Björn Þorvaldsson lagði afrakstur rannsóknar sinnar fyrir héraðsdóm í maí síðastliðnum, en sakborningarnir þrír töldu hana hafa verið í skötulíki og heimtuðu að málinu yrði vísað frá.

Á það féllst fjölskipaður héraðsdómur: Björn hefði alls ekki hlýtt Hæstarétti og rannsakað aðdraganda samningsins nógu vel, og málinu var því vísað frá. Nú fyrir helgi sneri Landsréttur þessari niðurstöðu svo við, það væri ákæruvaldsins að ákveða hvenær mál eru nægilega rannsökuð og tæk til meðferðar og dómstólar geti ekki endurskoðað slíkar ákvarðanir. CLN-málið fer því fyrir héraðsdóm á ný.