Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hrina kærumála skekur Mývatnssveit

15.12.2016 - 20:30
Kærumál hafa skekið Mývatnssveit á þessu ári og 6 kæru- og dómsmál vegna umhverfismála hafa verið til meðferðar hjá úrskurðarnefnd og dómstólum. Nýr sveitarstjóri tók við nýlega og fékk þessi mál beint í fangið.

Á þessu ári hafa fjórar kærur borist úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sem tengjast sveitarfélaginu. Landvernd hefur kært vegna Kröflulínu, tvisvar. Þeir kærðu líka vegna nýja hótelsins á Flatskalla. Að lokum kærðu eigendur Hótels Reykjahlíðar ákvörðun Umhverfisstofnunar, um að hafna viðbyggingu við hótelið sem myndi stækka það margfalt. 

Fyrir dómstólum eru svo tvö mál til viðbótar. Annars vegar rekur Landsnet eignarnámsmál gegn fjórum landeigendum í Reykjahlíð og hins vegar reka Landvernd og Fjöregg mál gegn ríkinu vegna friðlýsingamála. Til að flækja málið enn frekar, vill meirihluti landeigenda í Reykjahlíð fá aðild að því máli og tekur sér stöðu með ríkinu.

Hótelmálin þau nýjustu

Nýjustu málin eru vegna hótelanna tveggja. Flugleiðahótel ehf., sem rekur Icelandair Hotels, krefst þess að Skútustaðahreppur geti gert breytingar á skipulagi sem heimili stækkun hótelsins en Umhverfisstofnun telur það of mikið rask á náttúrunni og hefur bannað breytingar.

Hvað hitt hótelið varðar, sem verður rekið undir merkjum Fosshótela á Flatskalla, hefur Landvernd kært ákvörðun Skipulagsstofnunar um umhverfismat, og leyfisveitingar bæði Umhverfisstofnunar og Skútustaðahrepps fyrir framkvæmdinni.

Beint í hringiðuna

Nýlega tók nýr sveitarstjóri til starfa og hann lenti beint í hringiðu þessara mála.

„Fyrsta daginn í starfi sveitarstjóra að þá kom nú úrskurðurinn um Kröflulínu þannig að ég lenti beint í hringiðunni, þannig að þetta er búið að vera ansi fjörugt og ýmislegt að koma sér inn í á skömmum tíma,“ segir Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri.

Fljótt hafi hann séð að gera þurfi breytingar á því hvenær hægt sé að kæra.

„Þannig að þessar kærur geti þá komið fyrr í ferlinu, þannig að þetta sé ekki að koma þegar framkvæmdir eru jafnvel á lokastigi. Ég held það séu flestir sammála um það sem að þessum málefnum koma,“ segir Þorsteinn.