Hrífandi leikur í frumlegri sýningu

Mynd: Tjarnarbio.is / Tjarnarbio.is

Hrífandi leikur í frumlegri sýningu

22.10.2018 - 19:50

Höfundar

Einleikurinn Griðarstaður er metnaðarfullt og frumlegt leikrit sem fjallar jöfnum höndum kvíða, depurð og sorg, neysluhyggjur og loftslagsvá, að mati Hlínar Agnarsdóttur gagnrýnanda Menningarinnar.

Hlín Agnarsdóttir skrifar:

Getur IKEA bjargað geðheilsu okkar? Þessi spurning ásamt mörgum fleiri vakna eftir að hafa horft á leiksýninguna Griðastað eftir Matthías Tryggva Haraldsson sem nú er sýnt í Tjarnarbíó, heimili sjálfstæðu leikhúsanna.

Griðastaður er útskriftarverkefni Matthíasar Tryggva af Sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands frá því í vor og veldur ekki vonbrigðum.

Griðastaður er einleikur og eina persóna þess, Lárus, er í upphafi verks nýhættur að vera með kærustunni og mamma hans liggur fyrir dauðanum. Það er svosem ekkert dramatískt í sjálfu sér finnst honum, hún mun deyja eins og allir, því allir deyja, ekki bara mamma hans Lárusar og hann sjálfur heldur líka allir viðskiptamenn og starfsfólk IKEA þar sem hann er staddur.

Í IKEA hefur Lárus fundið sinn griðastað og getur tjáð sig um dauðann sem hann er upptekinn af en ekki síst samviskubitið vegna ástands heimsins, ástands sem fer hríðversnandi með neyslukapítalismanum, loftslagsbeytingum og umhverfisvá.

Frábær grunnhugmynd

Grunnhugmynd einleiksins er frábær að því leyti að í fyrirbærinu IKEA er mikil og frjó uppspretta sem hægt er að virkja með ýmsu móti í hugsun og skrifum. Og það gerir Matthías Tryggvi á óvenjulegan hátt, leyfir sér að láta gamminn geisa og fara með persónuna Lárus í óvænta leiðangra um þennan griðastað sem framkallar texta verksins.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Matthías Tryggvi sem jafnframt er leikstjóri sýningarinnar, teflir fram dauðlegri Ikeadýrðinni, jafnt í texta sem sviðsetningu, á móti lífi og tilfinningum Lárusar sem glímir við kvíða, depurð og sorg. Með þessum andstæðum; einstaklingurinn versus húsgagnarisinn tekst honum að skapa heim stútfullan af merkingu. Áhorfandinn kemst ekki hjá að hugsa um sitt eigið ,,tvíbenta“ samband við IKEA sem er órjúfanlegur þáttur í lífi okkar flestra, hvort sem okkur líkar það betur eða ver. IKEA er nefnilega ekki bara griðastaður fyrir sorgmæddan Lárus heldur fjölda nútímamanna um allan heim. Í neysluhofinu IKEA er hægt að kaupa sér fjöldaframleidda íkona sem veita gleði og hamingju og þar fer helgiathöfnin fram eftir settum reglum markaðs- og hönnunarguðanna. Um það vitnar t.d. lokaatriði sýningarinnar sem var óvænt og sterkt.

Metnaðarfullt framtak hjá spennandi höfundi

Matthías Tryggvi hefur fengið Jörund Ragnarsson til liðs við sig til að leika Lárus. Jörundur dregur upp trúverðuga mynd af persónu og tilfinningalífi Lárusar og ekki síst tekst hinum að koma til skila þeirri tragíkómík sem skrif Matthíasar einkennast af öðru fremur. Jörundur á ekki í nokkrum erfiðleikum með að hrífa áhorfendur með sér inn í IKEAheim Lárusar og vakti hlátur þeirra hvað eftir annað með hárréttum tímasetningum við flutning textans.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Saman hefur þeim Jörundi og Matthíasi tekist að skapa athyglisverða og frumlega sýningu á sviðinu í Tjarnarbíó sem nýtur jafnframt krafta annarra sviðslistamanna. Hópurinn allur er skrifaður fyrir leikmyndinni sem í aðalatriðum samanstendur af hvítum Billy bókahillum. Þær liggja skáhallt frá sviðsbrún langt inn í sviðsbotninn og minnir helst á landamæri lífs og dauða og dauðleika alls sem er. Hljóðmynd eftir Ingibjörgu Ýr Skarphéðinsdóttur myndar þunga og alvarlega undiröldu við tragíkómíkina á sviðinu.

Í heild má segja að hér sé um afar metnaðarfullt framtak að ræða hjá Matthíasi Tryggva sem verður spennandi að fylgjast með í vetur en von er á öðru verki frá honum í uppsetningu Borgarleikhússins eftir áramót.

Tengdar fréttir

Leiklist

Einsemd í hagkerfi dauðans

Leiklist

Mætir örlögum sínum í IKEA

Leiklist

Ikea er staður tímamóta