Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hreyfillinn splundraðist í 150 metra hæð

20.03.2018 - 13:19
Mynd: Ómar Ragnarsson / DV
Fyrir 36 árum í dag nauðlenti Fokkervél Flugleiða á Keflavíkurflugvelli. Um borð voru 22 Íslendingar og þriggja manna áhöfn. Vinstri hreyfill flugvélarinnar splundraðist skömmu eftir flugtak frá Ísafjarðarflugvelli er vélin var aðeins í um 150 metra hæð.

Mikill hvellur heyrðist þegar hreyfillinn sprakk og eldtungur stóðu aftan úr hreyflinum. „Við hugðumst náttúrulega lenda aftur eins fljótt og hægt er, aftur á Ísafjarðarflugvelli. En svo þegar ég ætla að setja niður hjólið vinstra megin kemur það ekki niður,“ segir flugstjórinn Gunnar Arthursson. „Þegar við sjáum það að við getum ekki lent á Ísafirði, þá var ekkert annað í myndinni en að fara til Keflavíkur, því það er langbesti völlurinn,“ en Gunnar segir það eina flugvöllinn hérlendis þá sem hafði nógu breið öryggissvæði, tækjabúnað og mannskap til að taka við nauðlendingu flugvélar af þessari stærð.

Guðrún Gunnarsdóttir flugfreyja sá um farþegana aftur í meðan flugmennirnir tveir, Gunnar og Hallgrímur Viktorsson flettu hratt í gegnum handbækur og rifjuðu upp það sem þeir höfðu lært um aðstæður sem þessar. „Ég vissi alveg strax að þetta var alvöru,“ segir Guðrún flugfreyja. En hvernig brugðust farþegarnir við eftir að hafa verið upplýstir um alvöru málsins? „Það verður bara dúnalogn. Það brá öllum greinilega en fólkið þagnaði skyndilega, en þetta er bara eitthvað mannlegt.“

Gunnar og Guðrún voru gestir Mannlega þáttarins dag og rifjuðu upp þessa eftirminnilegu flugferð en tæpa tvo tíma tók að fljúga frá Ísafirði til Keflavíkur. Viðtalið við þau Gunnar og Guðrúnu má hlusta á í fullri lengd í spilaranum hér fyrir ofan.

ghansson's picture
Gunnar Hansson
dagskrárgerðarmaður