Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hreppurinn skuldlaus eftir sölu hlutabréfa

01.07.2018 - 22:30
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason - RÚV
Með því að selja hlutabréf í Jarðböðunum við Mývatn gat Skútustaðahreppur greitt upp öll sín lán og er því skuldlaus. Þess utan nýtist hagnaður af sölunni til að greiða fyrir framkvæmdir næstu árin. Níu sveitarfélög hér á landi eru ekki með nein langtímalán.

Skútustaðahreppur átti tæplega 5,9 prósenta hlut í Jarðböðunum. Hreinn hagnaður sveitarfélagsins af sölunni var 195 milljónir króna. „Þetta var það skynsamlegasta í stöðunni, að losa hlutinn í Jarðböðunum. Það tilheyrir ekki kjarnastarfsemi sveitarfélagsins að reka jarðböð," segir Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps.

35 milljónum króna var varið til að greiða upp langtímaskuldir og er sveitarfélagið þar með skuldlaust. Hluta hagnaðarins verður varið í innviðauppbyggingu og það sem eftir stendur fer í varasjóð.

Níu sveitarfélög hér á landi eru ekki með nein langtímalán og eru sum þeirra alveg skuldlaus. Allt eru þetta fámenn sveitarfélög, flest með sterka tekjustofna. Skuldugustu sveitarfélögin eru jafnan þau sem eru í örum vexti.

En Þorsteinn segir undanfarin ár í Skútustaðahreppi hafa verið erfið. Lítið hafi verið hægt að sinna viðhaldi og lítil uppbygging orðið. En reksturinn hafi batnað upp á síðkastið. „Hér hefur verið talsvert mikil fjölgun íbúa, um 25-26 prósent á undanförnum 4-5 -árum. Og jafnframt verið mikið aðhald í rekstri." 

Og það séu stór og dýr verkefni fram undan, meðal annars við fráveitu, leikskóla og sundlaug. „Þetta er bara spurning um forgangsröðun sveitarstjórnar þegar þar að kemur. Þannig að við bara sjáum hvert þetta leiðir okkur," segir Þorsteinn.