Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hreistraðar kreppur og óhreistraðar

24.08.2017 - 16:21
Mynd: sanja gjenero / RGBStock
Viðbrögð evrópska seðlabankans í ágúst 2007 eru talin marka upphaf bankakreppunnar. Trú á að bankar hefðu miklu fullkomnari tök á áhættustýringu en áður áttu sinn þátt í kreppunni. Víða spyrja menn því hvort menn hafi lært af reynslunni 2007.

Þetta er ekkert öðruvísi núna en áður

Það er stundum sagt að það sé ekki alveg auðvelt að læra af reynslunni því þó sagan hafi tilhneygingu til að endurtaka sig þá rugli það menn í ríminu að núið virðist við fyrstu sýn alltaf eitthvað frábrugðið fyrri tímum. En aðeins við fyrstu sýn.

Þetta á sannarlega við um fjármálakreppur eins og fræg bók hagfræðinganna Carmen Reinharts og Kenneth Rogoffs um kreppur bendir til. „This Time it’s Different,” eða í þetta skiptið er það öðruvísi spannar átta aldir ósvinnu fjármálageirans. Vísar einmitt til þessa lærdóms að sömu grundvallarlögmálin gilda enn þó menn hafi haldið annað þar til allt hrundi.

Almennt má segja að þessi síðasta kreppa hafi sýnt að sem fyrr er há skuldsetning, skammtíma fjármögnun og hraður vöxtur efnahagsreiknings ávísun á vanda líkt og sannaðist í íslensku bönkunum og víðar.

Upprifjun kreppulærdóma

Nú þegar áratugur er liðinn frá því að menn gerðu sér grein fyrir að fjármálakreppa væri að skella á, þó alvaran og umfangið ætti enn eftir að koma í ljós, er víða fjallað um kreppulærdóminn.

Í ljósi þess að það var í tísku að leggja af reglur og auka svigrúm fjármálageirans til óviturlegra hluta þá hefur hluti viðbragðanna almennt verið sá að herða aftur reglur. Það er heilbrigð skynsemi að varast háa skuldsetningu og óheppileg og hættuleg áhrif skammtíma fjármögnunar og hraðs vaxtar efnahagsreiknings. Það hafa verið gerðar breytingar, bæði á Íslandi, í Evrópu og Bandaríkjunum síðan 2007.

Breytingar síðan 2007, iðulega í trássi við fjámálageirann

En það er líka vert að hafa í huga að fjármálageirinn hefur almennt barist gegn breytingum með kjafti og klóm þrátt fyrir fyrri reynslu sem bankar eins og Lehman lifðu ekki af. Ein breytingin sem alþjóðlegir bankar hafa barist gegn er aðskilnaður starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingabanka.

Aðskilnaður viðskiptabanka og fjárfestingabanka

Þetta er engin töfralausn en nú tæpum níu árum eftir hrun íslensku bankanna og fjórum ríkisstjórnum síðar hefur enn ekki verið tekið á slíkum aðskilnaði líkt og víða hefur verið gert. Benedikt Jóhannessyni fjármálaráðherra hefur snúist hugur í þessum efnum, var áður fylgjandi aðskilnaði en er ekki lengur jafn sannfærður. Þetta kom fram í júní þegar starfshópur skilaði skýrslu um þessi efni.

Er góðærið komið til að vera?

Af góðum og gildum ástæðum efast margir Íslendingar um hvort núverandi góðæri sé í raun nokkuð stöðugra en uppsveiflu- og bóluárin frá um 2003 fram í október 2008. Brennt barn forðast eldinn og tíðindamaður Spegilsins þekkir ekkert land þar sem jafn víða heyrast áhyggjuraddir um hvort vænn þjóðarhagur nú sé traustur eða ekki.

Það er vissulega mikill munur á aðstæðum nú og til dæmis 2006 og 2007. Íslenska góðærið nú er ekki bankadrifið, byggist ekki eins á lánum, bankarnir eru ekki að tvöfalda efnahagsreikninginn á ári eða tveimur eins og þá.

Hreistruð góðæri og tvífætt góðæri

Fyrir utan uppsveifluna fyrir hrun voru íslensk góðæri almennt alltaf hreistruð og með sporð og ugga, það er spruttu af góðum veiðum og góðu verði erlendis. Í þetta skiptið stendur góðærið ekki aðeins á traustari fótum en fyrir hrun heldur á tveimur fótum ferðamanna. Það má sjá féð streyma úr vasa þeirra víða um land á hverjum einasta degi. Það munar um það í viðbót við annað sem Íslandi hefur lagst til eins og lágt olíuverð.

En allir vita að þetta góðæri styrkir krónuna sem hleypir upp verðlagi sem aftur dregur úr eða gæti dregið úr aðsókn ferðamanna. Í viðbót þá er lítið hagkerfi eins og það íslenska í stöðugri hættu vegna utanaðkomandi áhrifa eða af náttúrunnar völdum, hvort sem eru alþjóðlegar olíu- og hráefnaverðsveiflur eða eldgos.

Upplýstir stjórnmálamenn sem greina að röksemdir sérhagsmunaafla og almanna hagsmuna

En heimatilbúin kreppa eins og íslenska bankakreppan minnir á að það skiptir máli að læra af reynslunni. Bankakreppur eru ekkert náttúrulögmál heldur spretta af ákvörðunum mannanna. Það erfiða er að þær spretta oft af ákvörðunum sem eru teknar eða ekki teknar löngu áður en ógæfan ríður yfir. Það var óvitlega brugðist við þegar íslensku bankarnir riðuðu til falls vorið 2006 en áhrifin komu ekki fram fyrr en í október 2008.

Ef menn vilja læra af reynslunni þá er það vel hægt. Fræðimenn benda gjarnan á mikilvægi upplýstra stjórnmálamanna, meðal annars til að greina að röksemdir sérhagsmunaafla og þeirra sem búa í haginn fyrir almannahagsmuni.

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV