Hreinn og beinn pönkari

Mynd: hallaharðar / hallaharðar

Hreinn og beinn pönkari

29.10.2018 - 10:54

Höfundar

Hulda Vilhjálmsdóttir hefur haldið fjölda sýninga á liðnum árum og fyrir sína síðustu einkasýningu, sýninguna Valbrá í Kling og Bang, var hún tilnefnd til íslensku myndlistarverðlaunanna. Víðsjá leit í heimsókn á vinnustofu Huldu

Hulda hefur unnið sína list í alla mögulega miðla frá því hún útskrifaðist úr Myndlistar-og handíðaskólanum fyrir tæpum 20 árum síðan. Málverkið hefur samt alltaf verið  hennar helsti miðill og er hún löngu orðin þekkt fyrir litríkar myndir sínar, sem oftar en ekki innihalda allskyns verur og náttúru, en þó fyrst og fremst konur og kannski líka ketti. Víðsjá leit í heimsókn á vinnustofu Huldu úti á Granda, þar sem hún segir að gott sé að vinna. Þar sé birtan falleg, stutt í göngustíga og mikið um að vera. Huldu finnst gott að sjá sjómennina vinna, því það hvetur hana sjálfa til að vinna.

„Það er svo skrítið með mig, að þegar ég ákvað að vera myndlistarkona þá varð ég ólétt, af Villa sem er orðinn 24 ára í dag.  Svo ég þekki ekkert annað en að hafa einhvern hjá mér, mér finnst það notalega. Börnin er líka svo góðir gagnrýnendur. Þau eru svo hrein og bein og sjá svo skemmtilega hluti.“

Þau eru kannski þínir helstu samstarfsmenn?

„Já, þau eru það,“ segir Hulda sem á fjögur börn.  „Auðvitað berst maður áfram í lífinu fyrir börnin. Mér fannst einhvernveginn þegar ég fór í skólann að það væri aðalkrafturinn að ég hélt áfram, ég vildi sýna þeim að ég gæti þetta. Það var ekkert annað.“

Processed with VSCO with a6 preset
 Mynd: hallaharðar

En hvernig er vinnurútínan þín, hér á vinnustofunni?

„Ég reyni að mæta á hverjum degi.  Ég bý í Þingholtunum og labba hingað, mér finnst gott að ganga, hugleiða og fá innblástur. Þá róast ég og kemst í eitthvað tempó. Síðan er ég oft í tímaþröng og hef ekkert nógan tíma til að vinna, þannig að ég hef stundum þurft að vinna rosalega hratt á stuttum tíma. Ég er soldið svona….ef maður talar um -isma, þá er ég dáldið expressión, svona tilfinningarík, en samt líka svona impressión, tilfinningarík, svona hughrif eða upplifun.“

Hvernig myndir þú lýsa myndunum þínum? Við sitjum hérna umkringdar konum, þú ert nú orðin dáldið þekkt fyrir konurnar þínar…

„Já. Það er rétt. Ég missi mömmu mína 2006, og hún átti mjög erfitt líf. Hún náði ekki að mennta sig eða gera það sem hana langaði til. En ég fékk krafinn til þess að gera það sem mig langaði til að gera...ég veit ekki hvað ég á að segja en þessi kona hún gaf mér kraft….en hún gerði mikið af skissubókum og gerði mikið af konum og ég einhvernveginn varð svo heilluð af þessari vinnu hennar.“

„Þegar ég var að byrja gerði ég mikið af sjálfsmyndum og vann með þær myndir, en svo fannst mér það svo leiðinlegt, að vera alltaf í sjálfri mér, ég vildi ekki vera svona egóisti, heldur upplifa lífið og kynnast öðrum konum. Þannig var það. Ég fór ofan í sjálfa mig, en opnaði mig svo.“

„Ég veit ekki hvernig stíll þetta er. Þetta er svona expressión, það sem maður upplifir...en samt svona hrein og bein. Ég er svona hrein og bein..já, svona pönkari, haltu bara saman og stattu þig, og bara hlaupa út og gaman.“

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.