Hreinleiki til sölu

Mynd: Asgegg / Wikipedia

Hreinleiki til sölu

02.07.2015 - 16:30

Höfundar

Með aukinni umhverfisvitund er betur fylgst með uppruna þeirrar orku sem heimili og fyrirtæki nýta sér. Á Íslandi er nánast öll raforkan af endurnýjanlegum toga, en ekki eru íbúar annarra landa margir hverjir jafn vel settir.

Frá og með árinu 2001 hefur verið hægt að versla með hreinleika ef svo mætti segja, í því sem snýr að uppruna þeirrar raforku sem notuð er. Þeir sem búa við mengandi orkuuppsprettur geta þannig keypt sér hreinleika í einhverjum mæli af hinum sem búa vel af endurnýjanlegri orku. Þá er talað um verslun með upprunaábyrgðir. 

Um þetta fjallar Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur í Samfélaginu

------------------------------------------------   

Pistill Stefáns - Upprunaábyrgðir

Síðustu daga hafa upprunaábyrgðir á raforku verið talsvert til umræðu í fjölmiðlum en hingað til hafa sennilega fáir haft hugmynd um tilvist fyrirbærisins eða hvernig það er til komið. Það eru kannski helst þeir sem hafa gaman af að lesa allt smáa letrið á rafmagnsreikningunum sínum sem hafa tekið eftir því að þar stendur eitthvað um að orkan eigi að hluta til uppruna í jarðefnaeldsneyti og kjarnorku. Þessar upplýsingar koma fram á uppgjörsreikningum sem flestir fá senda einu sinni á ári í pappírsútgáfu eða rafrænt. Ég fékk til dæmis einn svona reikning um síðustu áramót, þar sem stóð að „viðskiptalegur uppruni“ raforkunnar minnar hafi verið sem hér segir: „Endurnýjanleg orka 39%, jarðefnaeldsneyti 37%, kjarnorka 24%“.

Upplýsingarnar um jarðefnaeldsneyti og kjarnorku á rafmagnsreikningnum mínum komu mér reyndar ekkert á óvart. Ég hafði einmitt tekið eftir einhverjum svipuðum tölum ári áður og auk þess hafði ég lesið grein Birnu Hallsdóttur og Hrafnhildar Bragadóttur, sem birtist í Kjarnanum 19. júní í fyrra undir yfirskriftinni „Eru Íslendingar hættir að nota hreina orku“?

Umræða síðustu daga um upprunaábyrgðir byrjaði með hressilegum pistli Harðar Kristjánssonar í Bændablaðinu. Umræðan hefur verið upplýsandi og meðal annars gerði Arnhildur Hálfdánardóttir góða grein fyrir því í Speglinum í gær hvernig þetta virkar allt saman. Í stuttu máli á salan á upprunaábyrgðum upptök sín í Evróputilskipun frá árinu 2001 sem var fyrst innleidd í íslenska löggjöf 2008. Hvorki tilskipunin, íslensku lögin né reglugerð sem sett var á grundvelli þeirra getur með góðu móti flokkast undir alþýðlegt lesefni, þótt textinn sé reyndar ekki ýkja langur. Kannski var það einmitt þess vegna sem innleiðingin í íslenska löggjöf gekk býsna snurðulaust fyrir sig. Alla vega bárust fáar athugasemdir við lagafrumvarpið þegar það var sett í opið umsagnarferli og lítill hávaði var í umræðu og atkvæðagreiðslu um málið á Alþingi. Líklega sáu menn ekki fyrir hvað þetta myndi þýða í reynd á hinum einangraða íslenska raforkumarkaði.

Nú kann mörgum að finnast það hin mesta endemis vitleysa að íslensk orkufyrirtæki upplýsi orkukaupendur um að raforkan þeirra sé að einum fjórða upprunin úr kjarnorku, svo dæmi séu tekin, því að á Íslandi hafa jú aldrei verið nein kjarnorkuver og enn sem komið er liggur engin rafmagnssnúra á milli Íslands og umheimsins. Sjálfum finnast mér þessi 24 kjarnorkuprósent á rafmagnsreikningnum mínum til dæmis frekar hjákátleg. Ef maður setur sig í spor raforkukaupanda á meginlandi Evrópu lítur málið hins vegar allt öðru vísi út. Þar er kannski einhver notandi tengdur við raforkukerfi þar sem 20% af orkunni eru búin til með brennslu á kolum, 20% koma úr olíu, 20% frá sorpbrennslu, 20% frá kjarnorku og 20% frá vindmyllum. Í þessu dæmi eru vindmyllurnar eina uppsprettan sem telst endurnýjanleg og því er vel líklegt að umhverfismeðvitaður kaupandi, hvort sem um er að ræða heimili eða fyrirtæki, vilji bara kaupa orkuna þaðan. Auðvitað er ekki hægt að þekkja rafeindirnar í háspennulínunni í sundur eftir því hvort þær lögðu upp í ferðalag sitt um línuna í kjarnorkuveri eða vindmyllu. En umhverfismeðvitaði kaupandinn vill gjarnan eiga þess kost að borga nokkrar krónur eða evrur aukalega til að geta sagt með góðri samvisku að hann noti bara græna orku. Þetta gerir hann einmitt með því að kaupa upprunaábyrgð og um leið eykur hann eftirspurn eftir þessari grænu orku og hvetur til þess að hlutfallslega meira sé framleitt af henni. Með tímanum gæti þetta leitt til þess að raforkuverin sem framleiða orku með kolabrennslu eða kjarnorku eigi í vandræðum með að selja vöruna sína á sama tíma og vindorkuverin geta ekki mætt eftirspurn. Í svona kerfi verður auðvitað einhver að halda bókhald yfir öll viðskiptin og gæta þess að vindorkuverin selji ekki upprunaábyrgðir umfram þessi 20% sem þau framleiða. Og þannig er það einmitt í reynd. Þetta er sem sagt kerfi sem hefur alla burði til að stuðla að aukinni eftirspurn og þar með aukinni framleiðslu á endurnýjanlegri orku á kostnað óendurnýjanlegrar.

Þegar maður skoðað þetta annars ágæta kerfi í íslensku samhengi blasir allt annar veruleiki við. Hér er nefnilega nánast öll raforkan af endurnýjanlegum uppruna og auk þess erum við ekki tengd við raforkukerfi umheimsins. Íslensk orkufyrirtæki geta vissulega fengið einhverja peninga fyrir að selja aðilum erlendis réttinn til að segja að orkan sem þeir nota sé endurnýjanleg en um leið fyrirgera þau rétti sínum til að markaðssetjan orkuna sína hérna heima sem græna og væna. Og viðskiptin stuðla alls ekki að aukinni framleiðslu á endurnýjanlegri orku, eins og þeim er þó ætlað að gera. Hér missir kerfið sem sagt algjörlega marks. Í þokkabót gætu þessi viðskipti spillt þeirri ímynd að á Íslandi sé allt framleitt með hreinni orku. Reyndar ættu þessi viðskipti beinlínis að spilla þessari ímynd, því að samkvæmt bókstafnum ekki halda því fram að orka sé endurnýjanleg nema henni fylgi staðfesting á að svo sé, þ.e.a.s. upprunaábyrgð.

Nú er eðlilegt að spurt sé hvort ekki sé til einhver einföld leið út úr þeim ógöngum sem við virðumst hafa ratað í. Eins og iðnaðarráðherra hefur bent á eru þessi viðskipti öll lögleg og svo sem engin leið til að banna þau með valdboði ofan frá. En fólkið og fyrirtækin í landinu geta auðvitað tekið til sinna ráða ef þeim líkar ekki þetta tvöfalda siðgæði sem margir vilja meina að birtist í því að selja réttinn til þess að kalla orkuna sína endurnýjanlega en halda samt áfram að tala um hana sem slíka. Einfalt ráð er til dæmis að senda orkufyrirtækinu sínu kurteislegan tölvupóst og óska eftir kaupum á upprunaábyrgð fyrir raforkuna sem maður kaupir. Ég sendi einmitt svona tölvupóst um síðustu áramót til orkufyrirtækisins sem ég skipti við. Þar stóð einfaldlega: „Ég vil gjarnan kaupa upprunaábyrgð á raforkuna mína. Hvernig ber ég mig að“. Og það leið ekki nema tæpur klukkutími þangað til ég fékk svar þess efnis að nafnið mitt væri komið á lista viðskiptavina sem vilja fá raforku með vottuðum uppruna. Seint í sumar eða í haust á ég svo von á bréfi með staðfestingu á að raforkan mín sé eins græn og verða má. Og ég get sagt ykkur það, svona í trúnaði, að ég hef ekki miklar áhyggjur af reikningnum sem ég fæ með bréfinu. Í umræðum síðustu daga hefur komið fram að verðið á upprunaábyrgðunum sé um 5 aurar á kílówattstund. Ég kaupi um 5.400 kwst af raforku á ári, þannig að reikningurinn verður líklega upp á 270 krónur. Ég hlýt að ráða við það. Reyndar grunar mig að ég fái aldrei þennan reikning, því að kostnaðurinn við að sækja þessar krónur er sjálfsagt eitthvað hærri en sem nemur þessari upphæð.

Ég býst við að upprunaábyrgðir séu komnar til að vera. Hins vegar er vel líklegt að orkufyrirtækin gefist fljótlega upp á að selja upprunaábyrgðir til útlanda. Verðið í þeim viðskiptum fer líka að öllum líkindum lækkandi, þar sem íslenskum upprunaábyrgðum fylgir engin formleg staðfesting á að viðskiptin stuðli að aukinni framleiðslu hreinnar orku. Nú þegar virðist vera litið á íslenskar upprunaábyrgðir sem „annars flokks“ af þessum sökum. Kaupendur erlendis eru því hugsanlega þeir einir sem vilja geta skreytt sig með grænum lit fyrir lítinn pening en er nokk sama hvort þeir stuðli að aukinni framleiðslu á endurnýjanlegri orku eður ei. Ef til vill þróast þessi mál þannig að gefnar verði út upprunaábyrgðir fyrir alla raforku sem framleidd er á Íslandi, að frátöldum þessum fáeinu rafeindum sem koma frá dísilrafstöðvum, og að þessi vottorð muni síðan fylgja með í kaupunum til þeirra aðila innanlands sem vilja geta sagt að þeir noti eingöngu raforku af endurnýjanlegum uppruna. Útgáfa vottorðanna er vissulega ekki ókeypis en áhrifin á rafmagnsreikninginn verða óveruleg. Og þarna, sem víðar, getum við sem neytendur haft áhrif.

 

Tengdar fréttir

Umhverfismál

Tilvist íslenskra kjarnorkutómata útskýrð