Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hreinir fletir og framúrstefna

Mynd: RUV - samsett mynd / RUV - samsett mynd

Hreinir fletir og framúrstefna

26.01.2018 - 14:41

Höfundar

Menningaráhrif erlendis frá, til dæmis frá myndlistinni í París, og útgáfa tímaritsins Birtings höfðu mikil áhrif á menningu eftirstríðsáranna á Íslandi. Um þetta er fjallað í fjórða þætti af Ágætis byrjun, útvarpsþáttum þar sem menningarsaga fullveldisins Íslands er skoðuð.

Mikilvægur hópur myndlistarmanna í París

Eftir að veröldin hættir að berjast í síðari heimsstyrjöld sækja íslenskir listamenn sér innblástur í ýmsar áttir. Þó að áhrif Bandaríkjanna séu mikil, ekki síst í gegnum kvikmyndir og tónlist (varnarliðið byrjar til dæmis að senda út útvarp frá Keflavík árið 1951 og sjónvarp fjórum árum síðar), þá er þó áfram ýmislegt sótt til gamla heimsins.

Þegar horft er til myndlistarinnar er ljóst að París er enn endurvarpsstöð nýrra hugmynda. Óhlutbundin myndlist er búin að nema land á Íslandi en á sjötta áratugnum má segja að hún hreinsist upp: Formin verða hreinni og litirnir líka, fletirnir strangari. Geometrísk myndlist verður ofan á með tíð og tíma.

Birtingur er lykiltímarit

Tilkoma tímaritsins Birtings hafði mikil áhrif á umræðu um framsækna list hér á landi eftir að það hóf göngu sína um miðjan sjötta áratuginn. Í ávarpi í fyrsta hefti blaðsins, eftir að það hóf aftur göngu sína árið 1955, var reitt hátt til höggs. Greinilegt var strax að tímaritinu var ætlað að greiða fyrir nýjum straumum til landsmanna og líka ráðist gegn lífseigum klisjum um íslenska menningu.

Hér fyrir ofan má hlýða á brot úr 4. þætti af Ágætis byrjun - þættir úr menningarsögu fullveldisins Íslands. Þættirnir eru á dagskrá Rásar 1 kl. 17 á laugardögum og endurteknir á miðvikudögum kl. 14. Einnig er hægt að finna þá á hlaðvarpi RÚV, 

Viðmælendur í brotinu hér fyrir ofan eru Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir og Dagný Kristjánsdóttir en lesari ásamt umsjónarmanni er Sigríður Halldórsdóttir.