Hrein þekking á 15 mínútum?

Mynd: Þorvaldur Sigurbjörn Helgason / Þorvaldur Sigurbjörn Helgason

Hrein þekking á 15 mínútum?

11.07.2018 - 11:37
Þorvaldur Sigurbjörn Helgason veltir fyrir sér lestrarvenjum á tímum internetsins í fyrsta þætti af Hve glötuð er vor æska, bókmenntaþætti Rúv núll. Hann kemst meðal annars að þeirri niðurstöðu að sá sundurgreinandi lestur sem beita þarf á bókmenntir fáist ekki keyptur með appi.

Þorvaldur Sigurbjörn Helgason skrifar:

„Börn í dag dýrka lúxus; þau sýna fullorðnum óvirðingu og taka blaður fram yfir lærdóm. Börn eru harðstjórar, ekki þjónar heimilisins. Þau standa ekki upp fyrir eldra fólki. Þau andmæla foreldrum sínum, blaðra fyrir framan gesti, háma í sig matinn og kúga kennarana sína.“

Það kæmi manni eflaust ekkert á óvart að rekast á þessa tilvitnun á kommentakerfi netmiðlanna, skrifaða af einhverjum froðufellandi virkum í athugasemdum undir enn einni fréttinni af dvínandi lestraráhuga ungmenna eða sláandi niðurstöðum nýjustu PISA könnunarinnar. En staðreyndin er sú að þessi orð voru mælt af sjálfum Sókratesi fyrir rúmum 2400 árum síðan.

Eða svo segir internetið allavega. Í raun er þessi orð hvergi að finna í verkum Platóns né öðrum samtímamanna hans og því ómögulegt að fullyrða að þau séu tilvitnun í Sókrates. En ef til vill skiptir ekkert öllu máli hver sagði þessi orð í raun og veru. Við lifum á tímum þar sem sífellt erfiðara er að átta sig á samhengi hluta og í hringiðu falsfrétta og smellubeita er oft á tíðum nær ómögulegt að sigta út hvað er satt og hvað er logið. Eða eins og Abraham Lincoln sagði: „Ekki trúa öllu sem þú lest á internetinu.“

Tryllitækið internetið

En hver hefur tíma til að lesa eitthvað annað en það sem er á netinu, nú þegar hvert mannsbarn hefur í höndum sínum tæki sem gerir því kleift að nálgast allar mögulegar rafrænar upplýsingar með einni snertingu. Spegilslétt, glansandi 200 grömm af ótakmarkaðri afþreyingu og skilyrtum truflunum. Hvernig getur bók keppt við slíkt tryllitæki? Hvort má bjóða þér; föla stafi á rykföllnum blöðum eða alla stafræna þekkingu mannkynsins á einu bretti? Þegar valkostirnir eru jafn skýrir ætti valið að vera sáraeinfalt.

Einhverntíman las ég á netinu að einstaklingur á 21. öld upplifi meira upplýsingaflæði á einum degi heldur en einstaklingur á 15. öld upplifði yfir alla sína ævi. Ég man ekki hvar ég las þessa tilvitnun og hef ekki hugmynd um hvort hún sé sönn en hugmyndin er bæði heillandi og ógnvekjandi. Getur verið að þessi stöðuga keppni um athygli okkar sé bæði blessun og bölvun? Við höfum aldrei haft aðgang að meiri þekkingu en á sama tíma hefur athyglisgáfa okkar sennilega aldrei verið minni. En einmitt þar kemur lesturinn inn.

Sífelld truflun er stöðugt ástand

Endurnýjaðu fataskápinn þinn á umhverfisvænan hátt. 15. apríl nálgast óðfluga og nú fer hver að verða síðastur að kippa nagladekkjunum undan.... Halló! Ef einhver á gamla svefnpoka eða sængur og vill losna við, þá er ég mjög til í að sækja! Hjartanlega til hamingju með daginn, félagi.. Íslenska er ljót og tilgagslaust tungmál og vid eigumm ad skifta ifir í Dönsku.

Til að sigta úr öllu þessu stöðuga streymi upplýsinga þurfum við nefnilega ákveðinn lestur. Setningarnar hér á undan voru meðal þess fyrsta sem blöstu við mér þegar ég opnaði Facebook núna áðan, sem er eitthvað sem ég er búinn að gera oftar en ég get talið við skrif þessa pistils. Ég er orðinn svo vanur því að verða fyrir truflun við allt það sem ég geri í daglegu lífi að ég sæki meðvitað í hana sjálfur. Mér finnst hálfpartinn óþægilegt að vera ekki truflaður. En þessi sífellda truflun gerir það að verkum að maður verður betri í að sigta út það sem raunverulega kemur manni við, frá öllu hinu draslinu sem gerir það ekki. Skilja hismið frá kjarnanum, svo að segja. Þessi flokkun upplýsinga er óneitanlega ákveðin tegund lesturs og sennilega sú tegund sem við 21. aldar fólk erum hvað best í. En það er ekki þessi tegund lesturs sem við eigum að beita á bókmenntir.

Hrein þekking beint í heilann

Nýlega kom mér fyrir sjónir á einum þeirra samfélagsmiðla sem ég nota daglega auglýsing um nýtt app. Appið, sem ber nafnið Blinkist, býður upp á þjónustu þar sem hægt er að hlusta á hraðsoðna útdrætti úr bókum á aðeins 15 mínútum og með því innbyrða þekkingu sem myndi undir venjulegum kringumstæðum taka mann marga daga og jafnvel vikur að melta. Á heimasíðu appsins eru ýmis slagorð og tilvitnanir í hæstánægða notendur sem segja meðal annars: „Að lesa 15 mínútna útdrætti úr bókum á Blinkist er eins og að hlaða hreinni þekkingu í heilann minn! Ég elska það!“

Forstjóri Blinkin útskýrir yfir upplífgandi píanótónlist hvernig varan sem hann framleiðir getur uppfyllt drauma þína og hjálpað þér að breyta heiminum.

Ég ákvað að prófa appið og valdi mér til hlustunar bókina Fire and Fury eftir Michael Wolff sem fjallar um tildrög og afleiðingar þess að Donald Trump varð kjörinn forseti Bandaríkjanna. Útdrátturinn úr henni var u.þ.b. 18 mínútur að lengd en með því að hlusta á hann á tvöföldum hraða gat ég innbyrt bókina á aðeins 9 mínútum. Kiljuútgáfan af Fire and Fury er 336 bls. að lengd og á hljóðbókaveitunni Audible tekur hún tæpar 12 klukkustundir í flutningi. Með því að hlusta á bókina á Blinkist er ég því búinn að spara mér allavega 11 klukkutíma og 50 mínútur af lestri. Ég skildi reyndar ekki alveg allt í útdrættinum því ég gat ekki stillt mig um að fara á Facebook á meðan ég hlustaði en það er bara aukaatriði því nú á ég 11 klukkutíma og 50 mínútur sem ég get notað aukalega til að fletta í gegnum Facebook og Instagram og Twitter og Snapchat og Tinder. Sem er frábært! Því tími er einmitt það sem maður á aldrei nóg af.

Blinkist nær á einhvern ískyggilegan hátt að persónugera bæði það besta og versta við það að lifa í okkar tæknivædda heimi ársins 2018. Okkur standa til boða fullkomnar og hraðsoðnar lausnir á öllum okkar helstu vandamálum. Þar með talið að hafa ekki tíma til að lesa. En kannski þurfum við einmitt mest á því að halda að gefa okkur meiri tíma. Því lestur, sá sundurgreinandi lestur sem beita þarf á bókmenntir og í raun alla texta sem fara yfir 280 stafabil, krefst tíma og einbeitingar og það fáum við ekki í appi.

Pistillinn var fyrst fluttur í þættinu Hve glötuð er vor æska?, bókmenntaþætti RÚV núll, en hægt er að hlusta á hann í heild sinni í Spilaranum. Í þessum fyrsta þætti seríunnar var fjallað um bóklestur ungs fólks og reynt að svara því hvort hann þrífist í grunn- og framhaldsskólum landsins.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Eru menntskælingar hættir að skilja Laxness?

Bókmenntir

Bóklestur barna á uppleið

Bókmenntir

Hrun í bóklestri Íslendinga