Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hraunstrókur um kílómetra upp úr gíg fjallsins

20.11.2018 - 01:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Eldgosið sem hófst í eldfjallinu Fuego í Gvatemala á sunnudag færðist í aukana á mánudag og stóð glóandi hraunstrókurinn allt að kílómetra upp úr gígnum þegar húma tók að kvöldi. Um 4.000 manns þurftu að yfirgefa heimili sín vegna gossins, sem er hið fimmta í fjallinu á þessu ári. David de Leon, talsmaður almannavarna í Gvatemala, segir kraftinn í gosinu hafa vaxið eftir því sem leið á mánudaginn og skjálftavirkni sem fylgt hefur eldsumbrotunum einnig færst í aukana.

Gríðarmikill gosmökkurinn teygði sig um 7.000 metra til himins og berst með vindi í átt að höfuðborginni Gvatemalaborg.

Sem fyrr segir er þetta fimmta gosið sem verður í fjallinu Fuego á þessu ári. Þegar það gaus í júní síðastliðnum fórust um 200 manns svo staðfest sé. Engar fregnir hafa borist af manntjóni að þessu sinni. Fjallið er á meðal virkustu eldfjalla heims og nafn þess, Volcan de Fuego, þýðir einfaldlega eldfjall eldsins - sem stytta má í Eldfjall. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir