„Við fundum jólabarnið í mér, það var ekki alveg til staðar. Svo sá ég hvað er hægt að græða mikið á jólunum og þá blússaði upp jólabarnið í mér,“ segir Gauti kíminn. „Nei, ég er að djóka. En ég er kapítalískt jólabarn,“ bætir hann við. Að öllu gamni slepptu segist hann þó hafa fundið sitt innra jólabarn í gegnum föðurhlutverkið. „Á undan því bjó ég einn í Vesturbænum í kjallaraíbúð, en þá fór maður til mömmu að halda jólin. En núna á ég fjölskyldu og á tvær stelpur og konu og önnur stemning komin í gang.“
Jólaplötur um hábjartan sumardag
Hann bendir þó á að meðleikari hans Vignir sé óhuggulega mikið jólabarn. „Hann á allar íslenskar jólaplötur sem hafa komið út og stundum fimm eintök af sömu plötunni.“ Vignir svarar þessu játandi: „Ég er að panta eintök af Ebay, stundum um hjábjartan sumardag.“
Emmsjé Gauti hefur fært sig upp á skaftið í jólahaldi síðustu ár, en hann stendur meðal annars fyrir jólatónleikum sem bera yfirskriftina Julevenner Emmsjé Gauta. „Þetta átti að heita Jólagestir Emmsjé Gauta en ég var svo hræddur um að Bó myndi berja mig,“ segir Gauti og hlær. Vísar hann í Björgvin Halldórsson sem hefur skemmt landsmönnum í áratugi með tónleikum og plötuútgáfu undir yfirskriftinni Jólagestir Björgvins.
Lítið að gera hjá röppurum í desember
Gauti ítrekar þó að uppátækið sé alls ekki Björgvini Halldórssyni til höfuðs, heldur sé ástæðan önnur. „Við sáum að það vantaði á markaðnum að rapparar hefðu eitthvað að gera í desember, það eru allir atvinnulausir frá fyrsta des.“
Í upphafi átti Julevenner hugmyndin þó ekki að verða jafn stór í sniðum og nú er raunin. „Við ætluðum upphaflega að gera plakat, en svo vatt þetta upp á sig," segir Gauti. Hann bætir við að á dagskránni séu ekki eingöngu jólalög.
Tónleikarnir verða dagana 21., 22., og 23. desember.