Hraðakstur og sleifarlag í stærri bílum

14.03.2016 - 14:49
Lögreglubílar á bílastæði
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Lögreglan á Suðurlandi tók 33 ökumenn fyrir of hraðan akstur undanfarna viku. Þar af voru 15 teknir á milli Víkur í Mýrdal og Hafnar í Hornafirði, en þar hefur mikið verið um hraðakstur síðustu vikur. Lögreglumenn á Suðurlandi og úr Umferðareftirlitsdeild lögreglunnar höfðu afskipti af allmörgum stærri bílum í vikunni, þar sem notkun bílbelta, ökurita, hvíldartíma ökumanna og fleira var ábótavant.

Notkun öryggisbelta í hópferðabifreiðum var viðfangsefni lögreglumanna við Vík og Kirkjubæjarklaustur. Í nokkrum tilfellum var notkun öryggisbelta mjög ábótavant. Ökumenn og fararstjórar báru við lögreglu að þeir legðu áherslu á að farþegar notuðu öryggisbelti, en margir létu það sem vind um eyru þjóta.

Eigendur borga meira

Umferðaeftirlitsdeild lögreglunnar fylgdist þétt með stærri  bílum á Suðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu í liðinni viku. Fylgst var með ásþunga, ökuritum, hvíldartíma ökummanns, rekstrarleyfum, hópferðaleyfum og fleiru. Nokkrir ökumenn voru kærðir fyrir brot í þessum efnum. Eigendur bílanna eru einnig kærðir fyrir brot sem tengjast hvíldartíma og ökurita.  Sekt eigenda er þá hærri en ökumanna.

 

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi