Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Hótelherbergi afbókuð í stórum stíl

12.05.2014 - 18:04
Mynd með færslu
 Mynd:
Verkfall flugmanna er farið að hafa áhrif á ferðaþjónustufyrirtæki í landinu. Ferðamenn hafa bæði afbókað bílaleigubíla og reyndar framlengt leigu líka. Þá hafa hótelherbergi verið afbókuð í stórum stíl vegna verkfallsins.

Jóhann Sigurólason, yfirmaður gistisviðs á Grand Hóteli í Reykjavík, segir að þegar allt sé talið hafi vel á annað hundrað gistinátta verið afbókaðar á hótelinu. „Þá aðallega síðustu helgi. Þannig að þetta er verulega slæmt mál. Þeir sem ekki komast úr landi koma á móti.“

Þeir hafi reyndar ekki verið margir. „Nema í gær, þá fengum við nánast af götunni 150 manna amerískan hóp sem komst ekki til Bandaríkjanna vegna þess að flugið hafði verið fellt niður,“ segir hann. „En aðalmálið er að gestirnir eru verulega ósáttir við þetta, mjög pirraðir.“

Hann telur að hótelin sitji uppi með tapið. „Mér finnst ólíklegt að hótelin geri hreinlega neitt annað en að tapa þessu.“