Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hótel og háskóli á nýjum Laugardalsvelli?

Mynd með færslu
 Mynd: Hallgrímur Indriðason - RÚV

Hótel og háskóli á nýjum Laugardalsvelli?

26.09.2016 - 11:39
Hugmyndir um nýjan Laugardalsvöll, sem ráðgjafarfyrirtæki vann fyrir KSÍ, fela meðal annars í sér að hótelbygging og háskólastarfsemi verði í stúkubyggingunum, auk þess sem færanlegt þak verður á vellinum þannig að hægt verði að loka honum.

Skýrslan, sem ráðgjafarfyrirtækið Borgarbragur tók saman að beiðni KSÍ, var tekin fyrir í borgarráði fyrir tíu dögum og þar var samþykkt, að tillögu starfshóps um framtíð Laugardalsvallar, að fara í formlegar viðræður við KSÍ og ríkið um aðkomu borgarinnar að mannvirkinu. Stefnt verði svo að því að skrifa undir viljayfirlýsingu, þar sem meðal annars er tilgreint mögulegt kaupverð Laugardalsvallar, en Reykjavíkurborg á mannvirkið núna.

Tilefni skýrslunnar er talsverð óánægja með málefni vallarins, og er þá sama hvort um er að ræða nýtingu, rekstrarlegar forsendur, aðstöðu, viðhald eða fjármögnun. Hugmyndir Borgarbrags snúast um að gjörbreyta rekstrarumhverfinu þannig að hann verði arðbær og reksturinn óháður aðkomu ríkisins og borgarinnar, en í dag greiðir borgin tugi milljóna á ári með rekstrinum. Tekið er þó fram að fara þurfi í fullgilda hagkvæmnisathugun í samstarfi við erlenda sérfræðinga til að hægt sé að taka vel ígrundaða ákvörðun um framhaldið.

Annað sem hefur nokkuð að segja er að vegna breytinga sem Knattspyrnusamband Evrópu er að gera á keppnisfyrirkomulagi A-landsliðs karla, þar sem svokölluð Þjóðadeild verður stofnuð frá haustið 2018. Því liggur fyrir að A-landsliðið þurfi að leika heimaleiki í nóvember ár hvert, og stundum í mars. Þar getur verið vandkvæðum bundið við núverandi aðstæður, enda allra veðra von á þeim árstíma.

Tryggja þurfi frjálsíþróttaaðstöðu

Í skýrslunni er tekið fram að framtíð knattspyrnu á vellinum og frekari þróun hans sem knattspyrnuleikvangs sé að öllu leyti háð ákvörðun Reykjavíkurborgar um að fjarlægja hlaupabrautirnar, sem knattspyrnuhreyfingin vill að verði gert. Á móti vill frjálsíþróttahreyfingin ekki að hróflað sé við núverandi aðstöðu fyrr en nýr alþjóðlegur frjálsíþróttavöllur í Laugardal verði tilbúinn til notkunar. Það þarf því að finna nýjum frjálsíþróttavelli stað í Laugardalnum og byggja hann.

Í skýrslu borgarbrags er farið yfir hugmynd um að gera mannvirkið sjálfbært, og það er gert aðallega með því að hafa ýmiss konar starfsemi inni í stúkubyggingunum. Vesturstúkan telst fullbyggð – aðeins þarf að gera breytingar á þaki ef ákveðið verður að byggja völl með færanlegu þaki.

Norðurstúkan, sem byggð yrði á hliðinni sem snýr að Laugardalslaug, er hugsuðu fyrir hótelstarfsemi. Fulltrúar skipulagsins og Hverfisráðs Laugardals í starfshópi Reykjavíkurborgar telja Laugardalinn hins vegar ekki henta undir hótelstarfsemi, þó að hann gæti samrýmst markmiðum KSÍ að gera mannvirkið sjálfbært.

Austurstúkan gæti nýst íþróttaháskólastarfsemi Háskóla Íslands, sem áður var hýst á Laugarvatni og einnig hefur komið til tals að ný afreksíþróttamiðstöð ÍBR og ÍSÍ yrði á þeim stað.

Suðurstúkan, sem yrði á hliðinni sem snýr að Laugardalshöllinni, gæti svo nýst undir ýmiss konar starfsemi sem ekki hefur verið nánar tilgreind.

Að lokum er það svo vallarrýmið sjálft. Þar færu fram stærri kappleikir í knattspyrnu en einnig væri hægt að nýta rýmið fyrir handbolta og körfubolta ef hægt er loka þaki vallarins.

Kostnaður við slíkt mannvirki yrði tæpar 137 milljónir evra samkvæmt skýrslu Borgarbrags, sem er 17,5 milljarðar króna á núverandi gengi. 

15.800 ný sæti

Arkitektastofan Yrki skoðaði einnig möguleika á stækkun vallarins og byggingarmagn. Það var gert að beiðni Reykjavíkurborgar. Þær hugmyndir ganga út á að völlurinn verði færður í vesturátt, og því myndi núverandi austurstúka víkja. Hótel verði í suðurstúkunni, skóli í norðurstúkinni og íþróttaakademía í nýrri austurstúku.

Þar er gert ráð fyrir 15.800 nýjum sætum í stúkunum, sem þýðir þá að pláss væri fyrir 25.600 áhorfendur á vellinum. Byggingarreiturinn sem var 7000 fermetrar stækkar í 10.290 fermetra. Byggingin yrði alls rúmir 27 þúsund fermetrar.

Tekið skal fram að ekkert af þessum hugmyndum hefur verið staðfest. Afraksturinn mun væntanlega grundvallast á hagkvæmnimati sem nú er í vinnslu. Viðræður borgarinnar, ríkisins og KSÍ eru að hefjast.